Í dag kl. 15:00 opnar Georg Óskar sýningu í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Sýningin nefnist
“Í stofunni heima”.
Búast má við kaffi og jafnvel kleinum, allir eru hjartanlega velkomnir, og eins og kom fram í viðtali við Georg Óskar í Undralandinu á FM Trölla í gær, (@68:36) þurfa gestir ekki að hafa neina menntun í myndlist, eða telja sig hafa vit á henni til að njóta. Einnig er hægt að ræða við listamanninn um verkin.
Georg Óskar er ættaður frá Dalvík og Akureyri en býr núna ásamt kínverskri eiginkonu sinni í Berlín.
Hann nam myndlist á Akureyri og tók mastersgráðu í Noregi. Oftast hefur Georg Óskar sýnt á Akureyri og í Reykjavík, en upp á síðkastið hefur hann verið að sýna víða um heim, og fengið mjög góðar viðtökur hvar sem hann fer. Sýningin í Alþýðuhúsinu er 7. sýning hans á þessu ári, þar af eru 3 einkasýningar.
Georg Óskar og kona hans, sem er einnig myndlistarmaður, giftu sig í janúar og fluttu til Berlínar daginn eftir án þess að hann þekkti borgina neitt af öðru en því orði sem af henni fer. Þar eru mjög margir myndlistarmenn, og mun ódýrara að lifa en hér heima. Strax var farið að leita að plássi fyrir vinnustofu, en eftir 9 mánaða leit fluttu þau í hús og breyttu stofunni í vinnustofu.
Georg Óskar hefur ferðast mikið á þessu ári til að halda sýningar á verkum sínum, sem hann flytur gjarnan í snjóbrettapoka á milli landa.
Í byrjun árs tók hann þátt í gjörningahátíðinni Sköpun bernskunnar á Akureyri.
Aðrar sýningar hans á þessu ári voru:
Í London Ontario Canada, þar sem hann seldi nokkuð mörg verk í nýju galleríi,
í Hollandi í mars síðastliðnum, Sviss, Noregi og Berlín.
Verkin sem Georg Óskar sýnir í Alþýðuhúsinu í dag voru unnin í stofunni heima í Berlín á síðustu 9 mánuðum, og er um að ræða 7 málverk, olíupastel og teikningar.
Fyrirhugaðar sýningar á næsta ári eru: Newcastle í febr 2019 og Kúala Lúmpúr í austur Asíu í ágúst 2019.
Sjá einnig hér