Laugardaginn 10. nóv. 2018 kl. 15.00 opnar Georg Óskar sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina “ Í stofunni heima “
Verkin á sýningunni eru unnin sérstaklega fyrir Kompuna og leikur Georg sér með bakgrunnslit fyrir málverkin þannig að í raun má tala um innsetningu í rýmið.
Sýningin stendur til 25. nóv. og er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00.

.

 

Georg flutti frá Akureyri til Berlínar í Þýskalandi snemma í Janúar 2018, þar sem hann hefur sinnt málverkinu af miklum Krafti. Hann hefur vakið töluverða athygli fyrir málverk sín og fengið þó nokkra umfjöllun í tímaritum og fjölmiðlum. Georg hóf sýningarárið í janúar með samsýningunni “ Sköpun bernskunnar “ í Listasafninu á Akureyri, og hefur síðan tekið þátt í samsýningum í Hollandi, Þýskalandi og í Noregi.

Hann fór með einkasýningu til Swiss og aðra sem er nýlokið og bar yfirskriftina “ Notes from Underground “ til London Ontario í Kanada. Sýningarárinu lýkur Georg svo á um það bil sömu slóðum og það hófst, fyrir norðan í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

 

.

Um verkin.
Myndræn, jafnvel naumhyggja, en á sama tíma lausleg uppbygging, er viðeigandi lýsing á stíl Georgs. Frá því snemma á ferli hans hefur listamaðurinn verið trúr upprunalegum stíl sínum og myndmáli. Náin og einlæg tengsl við strigann bera þeirri staðreynd vitni að hann heldur ótrauður sínar eigin leiðir. Snarleg vinnubrögð eru aðferð hans og flæða litir og línur iðulega á frjálsa vegu í myndverkunum. Með því lagi nær Georg að festa líðandi stund á myndflötinn undir djúpum áhrifum af þeirri ástríðu sinni að segja sögur sem knýja á um tjáningu.

Listamaðurinn grípur á lofti áhugaverða atburði, sleppir myndunarafli sínu lausu um leið og hann rifjar upp eftirminnileg atvik í eigin lífi. Gjarnan er sótt í tónlist og ljóðlist til auðgunar. Einstaklingurinn, mannskepnan, er það sem myndlist Georgs snýst um. En hvorki sem fyrirmynd eður viðfang í sjálfu sér heldur aðferðin, hjólið, sem ber undur dagsins og ímyndunarafl um pensilinn.
Iðulega dregur Georg persónur sínar fram á sviðið þar sem þær birtast í einveru sinni en umluktar lifandi náttúru, hversdagslegu umhverfi eða jafnvel í framandi heimum.

Sjá nánar um viðburð: Hér

 

Frétt og myndir: aðsent