S.l. föstudagskvöld var boðið upp á glæsilega tónleika á Kaffi Rauðku sem sýndir voru í beinni útsendingu á Rúv. Þar komu fram landsþekktir tónlistarmenn og skiluðu sínu með óaðfinnanlegum hætti eins og vænta mátti. Þar var valinn maður í hverju rúmi, hvort sem um var að ræða hljómsveit eða söngvara. Samfelldur stórstjörnuleikur sem landsmenn hafa eflaust glaðst við.
Framtakið var frábært og hugmyndin góð.

En… Það er líka önnur hlið á peningnum séð frá svolítið öðrum sjónarhóli og það er vissulega aldrei neinn hafinn yfir gagnrýni. Sérstaklega ef hún getur orðið til þess að einhverjir geta af henni dregið einhvern lærdóm og gert ennþá betur næst.
Ég geri ráð fyrir að þar sem tónleikarnir fóru nú einu sinni fram í sjálfum síldarbænum, hafi sveitungar mínir nær og fjær verið jafnvel enn límdari við imbakassann þetta kvöld en aðrir landsmenn miðað við hina margfrægu höfðatölureglu. Þeir hafi jafnframt vonast til þess að sjá einhverja flytjendur úr gamla bænum sínum gleðja augu sín og næra sína siglfirsku sál.
Þegar komið er inn á síðu Rúv þar sem umræddur dagskrárliður er kynntur stendur nefnilega orðrétt: „Sumartónleikar RÚV og Rásar 2 verða í beinni útsendingu frá öllum landshlutum á föstudögum í júlí þar sem áhersla verður lögð á tónlist og tónlistarfólk frá hverjum stað“.

Til gamans lagði ég saman lög og flytjendur sem tengja mátti við hvern þéttbýliskjarna á norðurlandinu, og niðurstaðan er nokkurn vegin þessi:
Sauðárkrókur: 5 stig.
Húsavík: 5 stig.
Akureyri: 4 stig.
Dalvík: 3 stig.
Laugarbakki: 2 stig.
Skagaströnd: 1 stig.
Siglufjörður: 1 stig.
Aðrir þéttbýliskjarnar fengu engin stig.

Þarna virðist vera einhver skekkja í gangi hvort sem það er nú viljandi eða óviljandi gert. Reyndar lítur þetta út fyrir mér eins og kynnirinn Matthías Már sem jafnframt er tónlistarstjóri Rásar 2, komi þarna á framfæri sínum prívat vinalista og útvegi honum góða auglýsingu sem endurspeglar reyndar svolítið tónlistarpólitíkina á rásinni þar sem hann ræður ríkjum. Kanónuvæðingin verður til þess að fjölmargir vænlegir spámenn í sinni heimasveit sem hafa alla burði til að verða stjörnur á festingu hinnar íslensku tónlistarflóru fái þeir tækifæri til, verða að sætta sig við áframhaldandi skuggavarp frá hinum útvöldu og vonast til þess að einhverjir brauðmolar hrjóti af borðum elítunnar. Gleðileg undantekningin var í þessu tilfelli ung stúlka frá Sauðárkróki og það hefðu svo sannarlega fleiri slíkir flytjendur mátt stíga á stokk þetta kvöld á Kaffi Rauðku.

Svo er eins og eitt og annað hafi hreinlega gleymst í hita leiksins þó það hafi skorað feitt á sínum tíma, sé norðlenskt alla leið í gegn og tengist meira að segja Rúv órjúfanlegum böndum. Munið þið eftir sigurlaginu úr fyrstu söngvakeppni sjónvarpsins frá árinu 1981? Það var ættað frá Hvammstanga, hét „Af litlum neista“ og hefði svo sannarlega átt heima í dagskránni.

Þá var ekki annað hægt en að taka eftir því að sérstök athygli var vakin á Söngvakeppni framhaldsskólanna árið 2000 og sigurvegarinn flutti auðvitað lagið í framhaldinu, en ekki þótti ástæða til að minnast á sigurvegarana í sömu keppni árið 2002 sem allar eru norðlenskar og tvær þeirra meira að segja búandi í bænum. Englaraddir þeirra systra hefðu örugglega hljómað vel á pallinum og ekki hefði verið verra ef Björg Pálsdóttir sem einnig er norðlensk (frá Blönduósi sem átti engan fulltrúa á tónleikunum) hefði mætt á staðinn. En hvorki var haft samband við þær né nokkurt annað siglfirskt tónlistarfólk mér vitanlega, og þykir mér það miður þar sem bærinn er og hefur verið mikill tónlistarbær hvort sem horft er um öxl til fyrri tíma, eða aðeins til dagsins í dag. Þeir sem mættu á tónleikana þ. 11. febr. Í Siglufjarðarkirkju sáu bæði og heyrðu fjöldann allan af efnilegu siglfirsku tónlistarfólki gera góða hluti. Langar að nefna sem dæmi þau feðgin, Rafn Erlendsson og Hólmfríði Rafnsdóttir svo og bræðurna Júlíus og Tryggva Þorvaldssyni að fjölmörgum öðrum ólöstuðum. Þau hefðu öll svo sannarlega einnig átt fullt erindi í þáttinn.

En stutta útgáfan er í sem fæstum orðum sú, að mér þykir hlutur heimabæjarins nokkuð rýr þrátt fyrir að hæg hefðu átt að vera heimatökin.

Leó R. Ólason.