Fjällbacka var frægur túristabær löngu áður en Camila Läckberg byrjaði að skrifa sínar glæpasögur með dularfullum morðgátum í þessu fallega umhverfi.

Hér eru líklega bara framin falleg morð…” hugsaði ég og gat ómögulega séð það fyrir mér að fólk spásseraði um í þessu dásamlega umhverfi með morð í huga.

Greinarhöfundur hefur komið þarna áður en þá um vetur og óhætt er að segja að það er allt önnur upplifun að koma hingað um hásumar.

Sjá grein hér frá 2017 með mögum ljósmyndum og meiri sögulegum bakgrunni.

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Þetta er stórkostlega fallegur staður þar sem hafnarsvæðið er miðbærinn og hjarta staðarins og allt saman landmegin rammað inn í klettaumhverfi og skerjagarð hafsmegin.

Ég var þarna enn og aftur í heimsókn hjá góðum vinum en þau fluttu nýlega í aðra leiguíbúð nálægt kirkjunni sem stendur hátt og frá svölunum þeirra er dásamlegt útsyni yfir allt hafnarsvæðið og þar er mikið líf allan sólarhringinn þessa dagana.

Bátar af öllum stærðum og gerðum koma og fara stanslaust og manni leiðist aldrei að horfa yfir þessa skerjagarðsdýrð.

Hér á eftir kemur ljósmyndsaga og það þarf ekkert að eyða mörgum orðum til þess að útskýra þessa dásemd. Flestar eru teknar í Fjällbacka, nokkrar í Grebbestad sem er stærra bæjarfélag þarna rétt hjá og síðan einstaka aðrar myndir úr nágrenninu.
(Sjá nánar á yfirlitskorti í lok greinar)

Og svo eru þarna nokkrar gómsætar Sænskar matarréttar myndir líka.

Birgir Eðvarðsson Siglfirskur frændi minn og eiginkona hans Anna Margrét Ólafsdóttir á svölunum með bæjarins besta útsýni.
Klettarnir hanga yfir húsunum í miðbænum og Ingrid Bergman horfir á uppáhalds sumarleyfis umhverfið sitt. En afkomendur hennar eiga þarna fallega eigin eyju (Dannholmen) í nágrenninu.
Séð upp Galärbacken við Stóra hótelið. Allar götur eru þröngar og húsin standa þétt á klöppinni.
Partý.. Partý! Unga fólkið skemmtir sér vel og virðist ekkert vera að spá í Kóróna smithættu fyrir sjálfa sig eða aðra. Það skal þó tekið fram að flestir fullorðnir sem og starfsfólk veitingastaða og verslana tók á þessu með mikilli hörku og alvöru.
Hluti af hafnarsvæðinu í Fjällbacka.
Þetta bryggjupláss er eingöngu fyrir verslandi eyjaskeggja úr nágrenninu.

Forréttur

Þetta er einfaldur en góður síldarforréttur sem gamall sænskur síldveiðiskipsstjóri kenndi mér að skella saman.
Brauðkakan heitir Hönökaka (sérstök skerjagarðsbrauðkaka) og síðan setur maður slatta af sítrónumajónesi á það og þar á eftir lauksíld og kavíar frá Kläderholmen.

Aðalréttur

Dagsferskur grillaður smáhumar. (Havskräftor) Dásamlega gott og alls ekki svo dýr (245 skr = 3.800. ísk.) réttur á Jettys bar sem hét áður Richters sem er til húsa í gömlu síldarniðurlagningarverksmiðjunni í Fjällbacka.

Eftirréttur


Þykk Belgísk vaffla með jarðaberjasultu og þeyttum róma (eða rjómaís ef maður vill) og fersk sæt sænsk jarðaber í miklu magni. Mums.. Frá Hafnarbakaríinu í Kungshamn.
“Minning um þann “óþekkta frá hafinu.”

Kirkjugarðurinn í Fjällbacka er í litlum grasigrónum dal á bakvið kirkjuna því þar er smá undirlendi þar sem hægt er að taka grafir án þess að þurfa að nota dýnamít á þessa grjóthörðu granítkletta sem eru þarna út um allt.
Hér er minnisvarði um þýska sjódáta sem létust í einni af stærstu sjóorrustum fyrri heimstyrjaldarinnar 1916. (Battle of Jutland)

Illa farin sjórekin lík, fleiri þúsunda Breskra og Þýskra hermann rak á land eða festust í veiðarfærum sjómanna hér við vesturströnd Svíþjóðar í fleiri ár eftir þessa risa orrustu.
Svipaða minnisvarða og fjöldagrafir er að finna í nær öllum vestsænskum kirkjugörðum.
6.094 sjódátar létust dagana 31 maí til 1 júní 1916.

Grebbestad

Hluti af hafnarsvæðinu í Grebbestad. “Aðalgatan” er skemmtileg 1,5 km löng bryggjugöngugata.
Og þarna hvílir “Ryðgaða Ragnhildur” lúinn bein og á bak við hana er dásamlega fallegur sænskur eikarbátur.
Litlir sætir skerjagarðsbátar.
Í Grebbestad er þó nokkur alvöru nútíma útgerð.

Kungshamn

Síldargatan í Kungshamn. Það væri gaman að einhver gata á Sigló héti þessu nafni. T.d. mætti kannski hluti af Snorragötu, frá Gránugötu og suður að Leirutanga heita Síldargata.

Hér er hægt að sjá aðrar eldri greinar um bæði Smögen og Kungshamn.
Ferðasaga: Siglfirsk síldarsaga í Smögen og Kungshamn. 25 myndir
og
OKKAR FÓLK: Aegir Björnsson í Smögen

Sotenäs

SOTEKANALEN Hunnebostrand.” og “Mor Lenas stuga.” (Lítið steinhlaðið hús á miðri myndinni)

Fallegasti skipaskurður í heimi, segja margir bátaáhugamenn.
Þessi 4.8 km langi skipaskurður var opnaður 1931 og nær frá Kungshamn til Hunnebostrand.

Aðaltilgangur þessa mikla mannvirkis var á sínum tíma að forða sjófarendum frá bráðum dauða við hið illræmda Sotesker.

Fleiri myndir og sögur um Hunnebostrand hér:
FERÐASAGA: HEIMSÓKN TIL HUNNEBOSTRAND
og
ENDURVINNSLA: BROTAJÁRNS LISTAVERK
Brúaropnun við Sotekanal.
Greinarhöfundur og Armando Marcelo Liscano vinur minn við Smögenbrúnna.
Armando og Anette Stjernström eiginkona hans fóru með mig í bíltúr um Sotenäs kommun en hún á ættir sínar að rekja frá þessu svæði og hafði frá mörgu fróðlegu og skemmtilegu að segja.
Yfirlitskort af svæðinu frá Google maps.

Ljósmyndir og texti:
Jón Ólafur Björgvinsson

Heimildir eru að mestu fengnar úr munnlegum samræðum og vísað er í aðrar heimildir í gegnum netslóðir í greininni.

Aðrir pistlar og greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson á trolli.is

Dæmi um aðrar greinar um vesturströnd Svíþjóðar á trolli.is eða siglo.is:

PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! Lysekil (25 myndir)

DRAUMAR Í SÍLDARDÓSUM

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1-4 HLUTI.