Á vefsíðu Lifðu núna er áhugaverð grein um málefni eldri borgara sem sjá má hér að neðan.
Að fá eldra foreldri til að hætta að keyra bíl
Hvað er hægt að gera þegar við áttum okkur á því að pabbi eða mamma sem eru farin að eldast, eru farin að eiga í erfiðleikum með að keyra bíl úti í umferðinni? Þannig hefst grein á vefnum Sixtyandme.com, sem birtist hér í lauslegri þýðingu.
Þetta er eitt helsta áhyggjuefni þeirra sem sinna eldri foreldrum. Hafi þeir uppgötvað að foreldrarnir, eða aðrir eldri aðstandendur, eru ekki lengur færir um að keyra er óumflýjanlegt að ræða málið við þau. Það er bæði erfitt og viðkvæmt en algerlega nauðsynlegt.
Ef eldra foreldri er ekki lengur öruggt við stýrið, getur það slasast í umferðinni eða slasað saklausa vegfarendur og jafnvel börn. Það er betra að eiga þetta samtal við það, áður slys verður.
En fyrst þarf að skilja hvers vegna fólk er mótfallið því að hætta að keyra. Hvers vegna er það?
Margt eldra fólk verður móðgað, fer í vörn eða verður öskureitt þegar það er fært í tal við það að hætta að keyra. Það stafar af því að akstur á bíl veitir mikið frelsi og fólki finnst það meira við stjórn, ekki bara í bílnum, heldur í lífinu sjálfu ef það hefur bíl til umráða.
Foreldri þitt er líklega farið að glíma við færniskerðingu vegna aldurs og að biðja það um að hætta að keyra er bara enn ein viðbótin við allt sem rýrir sjálftraustið. Þar að auki finnst fólki það vera komið í ákveðna gildru ef það hættir að keyra og komist ekki lengur út á meðal fólks. Sérstaklega ef það býr í úthverfi eða hefur vanist algeru ferðafrelsi.
Umræðan er erfið og þér líður kannski eins og þú sért „vondi karlinn“ En jafnvel þó þú hafir sektarkennd vegna þessa, skaltu gera þér grein fyrir að þú ert að gera það rétta. Að sannfæra eldri manneskju um að hætta að keyra, bæði vegna eigin öryggis og annarra. Þér verður fyrirgefið, en það getur tekið tíma. Hún mun kannski aldrei viðurkenna það, en veit samt innst inni að þetta er nauðsynlegt.
Hér á eftir eru fjórar ábendingar um hvernig hægt er að milda áhrif þess að ræða það við eldra fólk að hætta að keyra og koma því í skilning um hversu nauðsynlegt það er.
Fylgstu með akstrinum og gerðu lista yfir aksturshæfnina
Byrjaðu á að gera lista yfir ástæður þess að foreldrið er ekki lengur öruggt á bílnum. Farðu í stuttar ökuferðir með mömmu/ pabba, til dæmis í búðina og taktu vel eftir því hvort þú sérð merki um að þau séu ekki lengur fær um að keyra í umferðinni. Skrifaðu þau síðan niður.
Þessi merki um óöryggi í akstrinum verða hluti umræðunnar um að þau ættu kannski ekki að vera að aka bíl lengur. Útskýrðu hvers vegna þú hefur áhyggjur af öryggi þeirra í akstrinum. Ef þú hefur þetta skrifað niður, er minni hætta á að þú gleymir ákveðnum atriðum í umræðunni.
Bentu á aðrar leiðir til að komast milli staða
Hvort sem þau geta keyrt eða ekki, þá þurfa eldri einstaklingar að fara sinna ferða og sinna ýmsum erindum. Það er líka nauðsynlegt fyrir þau að vera í sambandi við vini og vera virk í samfélaginu svo þau verði ekki félagslega einangruð, með öllu því neikvæða sem því fylgir.
Það er hægt að draga úr andstöðu þeirra við að hætta að keyra, ef þeim er hjálpað að vinna gegn frelsisskerðingunni sem bílleysið veldur. Það er hægt að fara yfir þær leiðir sem standa þeim til boða, sem ekki eru á bíl. Gerið plan um það hvernig þau geta áfram komist ferða sinna, þó þau keyri ekki. Hér eru nokkrar hugmyndir um það.
- Að fá far með einhverjum úr fjölskyldunni eða vinum sem enn keyra.
- Taka leigubíla.
- Nota strætó.
- Nota akstursþjónustu sveitarfélagsins, þar sem hún er fyrir hendi.
- Ganga, ef vegalengdir eru stuttar og þau eru fær um það.
- Fá far með sjálfboðaliðum er eitt þeirra atriða sem bent er á í þessari bandarísku grein. Lifðu núna er ekki kunnugt um að slíkt sé í boði hér, en það væri gráupplagt fyrir eldra fólk á Íslandi að koma slíkri þjónustu upp.
Nálgastu umræðuefnið af virðingu
Þegar þú ræðir við aldraða aðstandendur um að hætta að keyra, er mikilvægast af öllu að gera það af virðingu og sýna því skilning að það sé erfitt fyrir þá. Það er hægt að byrja á að segja „Ég veit að þetta er viðkvæmt og erfitt mál, en við þurfum að ræða hvernig þú keyrir“ Síðan skaltu fara yfir það á rólegum og vinsamlegum nótum, hvers vegna þú hefur áhyggur af akstri viðkomandi. Leggðu áherslu á að hann eða hún sé ekki lélegur ökumaður. Talaðu frekar um líkamlegt ástand eða önnur aldurstengd vandamál, sem gera það að verkum að þau eru ekki lengur öruggir ökumenn.
Gefðu þeim tíma til að venjast breytingunni
Það að biðja eldra foreldri um að hætta að keyra, þýðir að biðja það um að gera stórkostlega breytingu á lífi sínu. Breytingu sem hefur gríðarleg áhrif á lífsgæðin, þannig að það er skiljanlegt að það verði miður sín og reitt. En sýndu skilning og gefðu foreldrinu tíma til að sætta sig við breytinguna. Vegna þess hversu stór hún er, getur það tekið meira en eina umræðu að fá það til að skila inn bíllyklunum. Þá er bara að halda áfram að ræða málið í rólegheitunum á sömu nótum.
Mynd/pixabay