Ég var tregur til að fara í skólann þennan morgun. Það hvein í öllum gáttum hússins og það var snjókoma og skafrenningur úti. Mamma var þó ekkert að aumkast yfir mig. Það var skóli og allir krakkar færu í skólann þótt veðrið væri leiðinlegt.  Ekkert sífur né mjálm dugði á hana. Við áttum engan bíl svo kostirnir voru engir.

Ég var sjö ára og þetta var fyrsti skólaveturinn. Þrátt fyrir að mér fyndist skólinn svo skemmtilegur og hlakkaði til hvers dags, þá leist mér ekkert á að fara í þetta sinn.

Út um snjóugar rúður mátti sjá fólk ösla snjóinn í miðja leggi, hokið mót vindi á leið til vinnu. Veðrið náði því viðmiði að hundum væri út sigandi, svo stubbar þoldu það líka.

Eftir morgunverð, sem samanstóð af Melróses tei og mjólkurkexi var litla brúna skólataskan með koparsmellunum reyrð á bakið, lopahúfa dregin niður að augum og út með þig.

Vindurinn beit í kinnar og skafrenningurinn meiddi viðkvæma vanga svo ég varð að snúa mér undan og skakklappast til hliðar móti vindi eða snúa baki í hann þegar hviðurnar voru verstar. Ég kjagaði í gegnum snjóinn sem náði upp í klof og stundum í mitti.  Í annarri hverri glennu missti ég fótanna og hálfvegis skreið upp götuna.

Skólinn var ekki langt undan. Aðeins fimm til sjö mínútur á góðum degi, en þessi ferð tók þó heila eilífð. Hálfa leið var ég orðinn svo klepraður í snjó að ég var óaðgreinanlegur frá sköflunum. Ég sá akkúrat ekki neitt í hríðinni. Snjóöldurnar slúttu yfir mig og það skóf af skafleggjum svo ég vissi ekki hvað sneri upp né niður. Ég náði ekki andanum og var orðinn hræddur og kaldur. Snjórinn smeygði sér undir skálmar, ofan í hálsmál og upp í ermar. Kjökrandi jagaðist ég áfram tommu fyrir tommu eins og aflið leyfði og var við það að gefast upp.  Það var engin leið að snúa við því ég vissi ekkert hvar ég var í þessu áttlausa hvíta tómi.  Að snúa við gat alveg eins borið mig lengra af leið þar sem ég frysi í hel í einhverjum skaflinum. Mig langaði bara að leggjast og sofna og líða burt í algleymið.

Það var sem ég hefði barist þetta stundum saman. Sama hvernig ég sneri mér undan þá  lamdi snjórinn mig miskunnarlaust í andlitið. Engan var að sjá og lágróma óp á hjálp hefði ekki náð eyrum nokkurs manns.

Þegar ég var við það að gefast upp sá ég loks tíra í ljósastaur í fjarska. Hríðin dansaði í geislanum og ég skreið á maganum í átt að honum.  Þegar þangað kom slotaði lítillega í vindinum þar sem ég var í skjóli við íbúðarblokkir.  Nú vissi ég hvar ég var og gat tekið stefnu á skólann skammt frá. Ég greindi hann varla nema sem bjarma í kófinu.

Loks komst ég inn á skólalóðina sem var rudd og snjólétt og undraðist að ekki var nokkra sálu að sjá á ferli.  Þegar ég svo valt örmagna inn í anddyrið eins og snjóbolti, sá ég örfáa rjóða krakka sitja eins og slytti á tröppum,  rennblaut með stjarfa svipi og jafn örmgna og ég.

„Það er búið að aflýsa skólanum“ stundi einn krakkanna niðurlútur.  Það var heldur seint að segja það núna, hugsaði ég.

Kennari kom aðvífandi og sagði sér þykja leitt að ekki hafi náðst að hringja í alla fyrr en of seint, það kæmi jeppi rétt bráðum og keyrði okkur heim. Mér fannst þetta blóðugt óréttlæti en fann þó fyrir feginleika. Feginn yfir að sleppa lifandi og feginn að þurfa ekki að brjótast þetta til baka. Vettlingar, húfa, ullarúlpa voru köggluð í snjó (engir snjógallar þá). Ég fór úr þessu og lagði á ofninn á meðan við biðum. Það var hlýtt inni í gamla skólahúsinu. Brátt varð ég logandi heitur í andlitinu og rauður eins og eldhnöttur í framan. Skólataskan var háffull af snjó og stílabækurnar, átthagafræðin, kristinfræðin og allt þar inni var rennblautt. Það var þó smámál miðað við að vera heimtur úr helju eftir störukeppni við dauðann í tuttugu mínútur.

Þótt fullorðið fólk vaði snjó í miðja leggi og þoli snjódrífu í andlitið, þá gleymist það að fyrir stutta fætur þýðir það snjór í mitti og skafrenning sem þýtur ógnarhratt með jörðu en finnst ekki meter ofar. Þar er skyggnið ekkert þótt vel sé ratandi fyrir kloflengri manneskjur. Það eru ókostir þess að vera lítill.

Þegar illa viðrar og hamfarafréttir fljúga með ljósvaka um fokin þök og lokaða vegi,  þá verður mér alltaf hugsað til þessa stutta ævintýris sem ég man framar öllum öðrum svaðilförum.