Um síðustu helgi var sett aðsóknarmet í Síldarminjasafnið á Siglufirði. Þar fóru fram fjölbreyttir viðburðir, auk almennrar opnunar og heildarfjöldi gesta yfir helgina var um 3.300 manns. Þeir komu ýmist á safnið á eigin vegum, í skipulögðum hópum, með skemmtiferðaskipi eða voru hér sem gestir á málþingi, tónleikum, síldarsöltunum og síldarhlaðborði.
Einnig fóru fram á Siglufirði bæði Norræn strandmenningarhátíð og árleg Þjóðlagahátíð. Síldarminjasafnið tók mikinn og virkan þátt í skipulagningu og framkvæmd Strandmenningarhátíðarinnar og fóru fram fjölbreyttir viðburðir í húsakynnum safnsins um helgina. Á vegum Þjóðlagahátíðar voru tónleikar bæði í Bátahúsinu og Olíutankanum, frá fimmtudegi til sunnudags.
Auk almennrar opnunar og gesta sem heimsóttu safnið á eigin vegum, í skipulögðum hópum eða sem farþegar skemmtiferðaskipa fór fram málþing í Gránu á fimmtudegi um viðgerðir og viðhald báta og um hefðir í norrænni strandmenningu og skráningu á smíði súðbyrðings hjá UNESCO á föstudegi. Gamli Slippurinn var opinn gestum og gangandi alla helgina en þar voru norskir og íslenskir bátasmiðir við vinnu og jafnframt fór fram bátasmíðanámskeið og fengu þátttakendur tækifæri til að taka þátt í nýsmíði súðbyrðings og viðgerð á eldri bátum.
Síldargengið hélt uppi fjörinu á planinu við Róaldsbrakka og fóru fram sex síldarsaltanir auk umfangsmikils síldarhlaðborðs þar sem tveir sænskir gestakokkar reiddu fram dýrindis síld, ýmist marineraða eða grillaða.
Þjóðminjavörður, mennta- og menningarmálaráðherra, norsku og sænsku sendiherrarnir og Forseti Íslands voru meðal þeirra sem sóttu safnið heim um helgina. En heildarfjöldi gesta á safninu, sem og á viðburðum í húsakynnum safnsins var um 3.700 – sem eru fleiri en allir þeir sem heimsóttu safnið fyrstu fimm mánuði ársins!
Texti: aðsendur
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir