Starfsfólk Síldarminjasafnsins hefur undanfarin ár boðið grunn- og leikskólabörnum í Fjallabyggð til aðventustunda á safninu. Börnin eru frædd um eitthvert afmarkað viðfangsefni sem tengist jólunum og þeim boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur.
Í ár var börnunum sagt frá jólakettinum, uppruna hans og hvernig hann kemur fram í þjóðsögum. Lesin var bókin Jólakötturinn tekinn í gegn eftir Brian Pilkington, en þar er sögunni um latan og geðstirðan köttinn sem jólasveinarnir þurfa að baða og þrífa fyrir jólin snúið upp í góðlátlegt grín, sem féll vel í kramið hjá börnunum. Öll föndruðu svo sinn eigin jólakött sem þau tóku með heim.
Alls komu 230 börn í heimsókn á aðventunni, í þrettán hópum. Þau yngstu þriggja ára en þau elstu þrettán ára.
Forsíðumynd: Síldarminjasafnið