Siglfirðingurinn Ragnar Thorarensen vinnur nú að uppkasti að æviminningum sínum og hefur birt nokkra kafla úr væntanlegri bók. Þar má finna einlægar og áhrifamiklar frásagnir frá litríku lífshlaupi hans.
Hér að neðan er kafli úr æskuárum Ragnars á Siglufirði, sem hann veitti Trölla.is góðfúslegt leyfi til að birta.
Minningar frá Siglufirði
Það var gott að alast upp á Siglufirði og ég á margar dásamlegar minningar frá uppvaxtarárunum þar. Ég bjó á Sigló í ellefu ár, frá því ég var átta ára og fram til nítján ára aldurs. Í minningunni virðist þessi tími þó vera miklu lengri – tíminn líður nefnilega hægar í barnæsku, þegar við lifum mest í augnablikinu.
Stundum finnst mér það undarlegt – hvað þetta voru í raun ekki svo mörg ár, en samt gerðist svo ótrúlega margt á þessum tíma. Þetta tímabil markaði umbreytingu úr því að vera barn yfir í að verða fullorðinn einstaklingur – en sá einstaklingur sem kom út úr þessu ferli var með brotna sjálfsmynd og lítið sjálfstraust. Það voru falleg ár á yfirborðinu, en undir niðri var togstreita og tilfinningaleg óvissa sem átti eftir að fylgja mér lengi.
(mun meira sem á eftir að koma hér inn í þennan kafla)
Íþróttaárin og áhrif föður míns
Ég tók virkan þátt í íþróttum á Siglufirði. Á sumrin spilaði ég fótbolta og á veturna æfði ég badminton og fór á skíði. Ég varð aldrei neitt sérstaklega góður í neinni íþrótt, nema kannski í badminton þar sem ég varð Siglufjarðarmeistari í einliða og tvíliðaleik í unglingaflokkum. Mér fannst líka gaman á skíðum, en eftir að ég fótbrotnaði var ég alltaf ragur og náði mér aldrei almennilega aftur í alpagreinum. Ég var hræddur við hraðann og að detta aftur.
Að lokum skipti ég yfir á gönguskíði sem mér fannst mjög skemmtilegt, en ég náði þó aldrei neinum sérstökum árangri í keppni. Ég hafnaði þó einu sinni í þriðja sæti á punktamóti á Siglufirði árið 1979 í flokki 13 til 15 ára – og var mjög ánægður með brons medalíuna sem ég fékk. En auðvitað vorum við bara þrír keppendur í þeim flokki á þessu móti því Ólafsfirðingar komust ekki til Siglufjarðar vegna ófærðar.
Keppnisferðalögin, hvort sem þau voru í badmintoni, skíðum eða fótbolta, voru alltaf mikil ævintýri. En þó fannst mér þau oft erfið því sjálfstraust mitt var ekki gott. Ég átti það til að upplifa mig utanveltu og fannst ég ekki eiga heima í hópnum. Þegar komið var að skólaferðalögum, bæði þegar ég lauk barnaskólanum tólf ára og gagnfræðaskólanum fimmtán ára, þá ákvað ég að fara ekki með. Mér fannst það óþægilegt. Stundum vildi ég bara hverfa, fela mig og vera ekki sýnilegur.
Í fótboltanum byrjaði ég sem kantmaður en færðist síðan yfir í vörnina – líklega af því að ég var ekki nógu fljótur. Ég var aðeins of þungur til að hlaupa hratt. Að lokum endaði ég í markinu og þar var ég bara nokkuð góður í yngri flokkunum.
Ég vissi að ég var of þungur og mig langaði til að létta mig. En þá greip pabbi inn í – með sínum dæmigerða, ógnandi hætti – og neyddi mig til að borða. Löngu seinna, þegar ég var orðinn fullorðinn og minnti hann á þetta, sagði hann: „Ég vildi hafa þig feitan og pattaralegan. Mér fannst þú svo sætur svoleiðis.“
Þetta var enn eitt dæmið um hvernig hans eigin þarfir og egó réðu ferðinni í mínu lífi – jafnvel þegar kom að því hvernig mér vegnaði í íþróttum. Það er eiginlega ótrúlegt að hann hafi vitandi vits viljað kúga sitt eigið barn til að borða, bara af því að honum fannst það fallegt að ég væri feitur.
Tími til að fara að heiman og þó
Eftir samræmdu prófin í gagnfræðaskólanum vissi ég ekkert hvað ég vildi gera. Allt í einu var komið að því að fara að heiman – eitthvað sem ég hafði bæði hlakkað til og kviðið fyrir. Ég þráði að komast frá pabba, en á sama tíma vissi ég ekki hvort ég gæti bjargað mér almennilega sjálfur á nýjum stað. Ég var svo háður pabba og stjórnsemi hans, þó ég vildi fyrir alla muni losna undan honum.
Það varð úr að ég tók fyrsta bekk í framhaldsskólanum heima á Siglufirði, þar sem sú leið var í boði. Eftir þann vetur langaði mig til að verða smiður. En pabbi tók það ekki í mál og hreytti út úr sér: „Iðnaðarmaður! – þeir þurfa að vinna!“ Pabba fannst það ömurlegt.
Auðvitað þurfa allir að vinna, en í hans huga var hans starf aldrei „vinna“ – líklega af því að hann hafði gaman af því. Hann gat legið klukkutímum saman í sófanum í búðinni ef enginn kom inn, sérstaklega þegar veðrið var vont. En auðvitað græddi hann ekkert á meðan hann lá þar.
Það var einmitt eitt sinn sem einhver opnaði hurðina á búðinni og pabbi gólaði hátt og snjallt: „Ég stend ekki upp fyrir minna en 1.000 krónur!“ Hurðinni var lokað strax aftur. Nokkrum dögum síðar frétti pabbi að þetta hafði verið utanbæjarmaður sem sagðist ekki hafa átt góða reynslu af þessari búð. Þegar hann hafði ætlað sér að kíkja inn, hafði hann heyrt hátt og skýrt innar úr búðinni að ekki yrði staðið upp fyrir minna en þúsund krónur. Honum þótti það heldur mikið fyrir það eitt að standa upp og afgreiða – hann túlkaði þetta sem einhvers konar þjónustugjald.
Mynd/úr einkasafni