Afar áhrifarík frásögn Bjarna Frímanns Karlssonar af Stígandaslysinu.

Stígandi ÓF 25 var gerður út frá Ólafsfirði þegar hann sökk með síldarfarm djúpt norðaustur af landinu í ágúst 1967. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbáta skipsins og léttabát og síðan um borð í Snæfugl frá Reyðarfirði eftir fimm sólahringa úti á ballarhafi við erfiðar aðstæður og litlar vistir.

Bjarni Frímann, einn áhafnarmeðlima, segir í þessum Útkallsþætti frá örlagaríkum dögum þeirra á hafi úti, hvernig þeir héldu vaktir, skömmtuðu sér naumt vatn og kex til að halda lífi og horfðu á tvö skip sigla hjá, sem ekki sáu björgunarbátana.

Stígandaslysið hafði veigamikil áhrif á öryggismál sjómanna. Í nokkur ár hafði verið umræða um nauðsyn þess að koma á tilkynningaskyldu skipa. Fljótlega eftir óhappið ákváðu skipstjórar síldveiðiskipanna sem stunduðu veiðar við Svalbarða að hefja reglulegar tilkynningar, sem fólust í því að gefa staðarákvörðun og veðurlýsingu tvisvar á sólahring til Síldarleitarinnar á Raufarhöfn. Fyrir síldveiðarnar sumarið 1968 tók svo Tilkynningaskylda íslenskra skipa til starfa.

Léttabáturinn eða jullan sem Bjarni Frímann segir frá í viðtalinu er varðveitt á Síldarminjasafninu á Siglufirði.

Heimild/Síldarminjasafnið