Hvammstangabúi sendi okkur þessar línur seint í gærkvöldi, fullsaddur af rafmagnsleysinu þar.

Nú eru liðnar 32 klst. síðan rafmagnið fór hér á Hvammstanga.

Hér sit ég við kertaljós og læt hugann reika um áhrif viðlíka ástands á okkur nútímafólkið sem hefur sjaldan eða aldrei kynnst öðru eins. Hér er sama og ekkert net- og/eða símasamband. Sjálfsögð lífsgæði eins og að geta fengið sér rjúkandi kaffibolla þegar hugurinn girnist, hlammað sér fyrir framan Netflix eða valið notalega tónlist til að njóta á meðan veðrið gengur yfir eru allt í einu ekki í boði.

Ekki einu sinni valið sér útvarpsstöð til að hlusta á, þar sem ég bý ekki svo vel að eiga útvarpstæki… nema í bílnum auðvitað. RUV næst ekki einu sinni, sem á að vera öryggistæki í svona aðstæðum.

Ég verð að viðurkenna að ég skammast mín fyrir að nöldra yfir svona smámunum, þó koffínskortur hafi látið verulega á sér kræla með tilheyrandi skapsveiflum, enda er ég svo heppinn að búa á heitu svæði- Hér ætti engum að verða kalt.

Það sem mér þykir aftur á móti hrikalegt til að hugsa, er að bráðaþjónusta er nánast lömuð sökum rafmagnsleysis.. sem mér þykir með ólíkindum. Að árið 2019 sé staðan virkilega þannig að það er ekki hægt að treysta því að hægt sé að ná sambandi við bráðaþjónustu… Annars eru allir hér í stakk búnir að hjálpa hverjum öðrum eftir fremsta megni.

Nú er veðrið a.m.k. gengið niður- Ég hlakka til að vakna á morgun og horfa á nýja landslagið sem hefur orðið til undanfarna 2 sólarhringa.

 

Trölli.is þakkar sendinguna og sendir góðar kveðjur til lesenda, hvort sem þeir lesa þetta af rafhlöðudrifnum tækjum í rafmagnsleysi, eða stórum og fínum rafdrifnum ofurtölvum á skrifborði.

 

Snjómokstur á Hvammstanga 11. des. 2019

 

Útsýni á Hvammstanga 11. des. 2019

 

Snjalltækjahleðslustöðvarnar að störfum á Hvammstanga

 

Myndir: Sigurvald Ívar Helgason