Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar lagði fram á 668. fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar minnisblað sem hann nefnir “Framtíðarfyrirkomulag brunavarna”.
Í minnisblaðinu veltir Elías upp þeirri hugmynd að sameina slökkvilið Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar, og samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að óska eftir viðræðum við Dalvíkurbyggð um mögulega sameiningu slökkviliða sveitarfélaganna.
Bæjarstjóri leggur á það áherslu að hvort sem ákveðið verði að sameina slökkvilið sveitarfélaganna, auka samvinnu í málaflokknum eða reka sjálfstætt slökkvilið þá fari fram úttekt á stöðu brunavarna og í framhaldinu stefnumótun til lengri tíma.
Einnig bendir bæjarstjóri á að fyrir liggur krafa um að lágmarks fyrirkomulag slökkviliðs þar sem undir 5.000 íbúar búa á starfssvæði slökkviliðs skal vera þannig að slökkvilið skuli mannað af slökkviliðsmönnum í hlutastarfi sem ekki hafa fasta viðveru á slökkvistöð en eru skyldugir til að mæta í útköll eftir föstu skipulagi.
Einnig fjallar minnisblaðið um erfið samskipti við Vegagerðina á undanförnum misserum, þar sem tekist er á um fyrirkomulag brunavarna í jarðgöngum sveitarfélaganna, Strákagöngum, Héðinsfjarðargöngum og Múlagöngum, og eru færð sterk rök fyrir því að Vegagerðin sé ekki að standa við lögbundið hlutverk sitt í málaflokknum.
Minnisblað bæjarstjóra er nokkuð ítarlegt, alls 27 blaðsíður með viðaukum og má sækja hér.