Það hefur vakið athygli gesta sem koma í Menntaskólann á Tröllaskaga hversu afslappað og heimilislegt andrúmsloftið þar er.
Hafa kennarar, jafnt innlendir sem erlendir, sem í skólanum hafa verið að fylgjast með kennslu, að taka þátt í samstarfsverkefnum eða að fræðast um starf hans haft orð á þessu. Ekki síður hefur það vakið athygli þeirra hversu mikið sjálfstæði nemenda er og hversu mikla ábyrgð þeir taka á eigin námi.
Skólastarfið hefur þróast í að staðnar kennslustundir eru fáar en í staðinn eru nemendur í vinnutímum þar sem þeir hafa aðgang að kennurum en stýra vinnu sinni sjálfir. Í kennslukerfi skólans, Moodle, er mest allt námsefni, innlagnir, ítarefni og verkefnalýsingar frá kennurum svo nemendur hafa að mestu á einum stað það sem þeir þurfa til að vera sjálfbjarga í náminu. Ef þeir þurfa nánari upplýsingar eða leiðbeiningar leita þeir til kennara og fá þá aðstoð sem þeir þurfa.
Í viðtölum við nýnema á þessari önn komu fram sömu viðhorf og hjá gestum skólans. Eftir tæpa þrjá mánuði í skólanum hafa nýnemarnir vanist nýjum vinnubrögðum og eru mjög ánægðir með fyrirkomulagið. Segjast þau finna fyrir því að ábyrgðin sé þeirra, það eru ekki kennarar að segja þeim hvar og hvenær þau eiga að læra, heldur eru þau sjálf við stjórn og skipuleggja sitt nám eftir því sem þeim hentar innan ramma vinnulagsins í skólanum. Kennararnir séu boðnir og búnir að aðstoða þegar með þarf hvort sem er á staðnum eða í gegnum tölvupóst. Nemendur hafa svo ýmis rými í skólanum til að vinna í og koma sér fyrir þar sem þeim og verkefnum þeirra hentar hverju sinni. Myndir