Alþingi samþykkti í fyrradag breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem m.a. kveða á um að óheimilt verði að afhenda plastburðarpoka í verslunum frá og með 1. janúar 2021.

Óheimilt verður að afhenda hvers kyns burðarpoka án endurgjalds frá og með 1. september næstkomandi.

Burðarpokar úr plasti eru hvoru tveggja þykku pokarnir sem fást í stykkjatali á afgreiðslukössum verslana og þunnu pokarnir sem m.a. hefur verið hægt að fá endurgjaldslaust í grænmetiskælum matvörubúða. Bannið tekur ekki til plastpoka sem eru söluvara í hillum í verslunum, svo sem nestispoka og ruslapoka sem seldir eru margir saman í rúllum.

Með samþykkt laganna er fylgt eftir tillögum samráðsvettvangs um aðgerðir í plastmálefnum sem í sátu fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópurinn skilaði umhverfis- og auðlindaráðherra tillögum að 18 aðgerðum í nóvember síðastliðnum og bann við burðarplastpokum var ein þeirra.

Lögin kveða jafnframt á um að umhverfis- og auðlindaráðherra setji fram töluleg markmið varðandi árlega notkun burðarpoka úr plasti í reglugerð.

Með lögunum er innleidd Evróputilskipun er lýtur að því að draga úr notkun á burðarpokum úr plasti. Frumvarpið gengur þó lengra en lágmarkskröfur tilskipunarinnar gera ráð fyrir. Þannig ná þau til allra burðarpoka úr plasti, óháð þykkt þeirra, m.a. þunnu plastpokana sem m.a. hafa verið fáanlegir við grænmetiskæla verslana. Lögin kveða einnig á um að óheimilt verði að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án endurgjalds, á sölustöðum vara frá og með 1. janúar 2021, en þó tilskipunin kveði ekki á um þetta er í henni tiltekið að aðildarríkjum sé heimilt að grípa til slíkra ráðstafana. Þá eru allir burðarpokar gerðir gjaldskyldir, óháð því úr hvaða efni þeir eru. Þetta er gert til að reyna að auka hlut fjölnota poka, draga úr ofneyslu burðarpoka og koma í veg fyrir að ein einnota neysla færist yfir á aðra.

„Banni við burðarplastpokum er ekki ætlað að vera allsherjarlausn á plastvandamálinu, heldur ein aðgerð af mörgum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Í mínum huga er þetta er sérstaklega mikilvæg aðgerð því hún snertir daglegt líf okkar og eykur þannig vitund okkar um plast og notkun þess í okkar daglega lífi. Ég fagna því líka að með þessum lögum gengur Ísland á undan með góðu fordæmi og tekst af enn frekari krafti á við plastmengun og neyslu en alþjóðasamningar okkar segja til um.“

Spurt og svarað um bann við burðarplastpokum

 

Af stjornarradid.is