Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin.
Í bókinni er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina.

Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra.

Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu.

Hér á eftir verður gripið niður í frásögn Ingimars Tryggvasonar sem er einn af þeim fjölmörgu sem eiga þyrlu á vegum LHÍ lífið að launa:

„Við vorum á karfaveiðum á Skerjadýpi, um 70 sjómílur suðvestur af Reykjanesi, þann 3. apríl 2000 þegar ég slasaðist eftir að við tókum inn mjög stórt hol af karfa. Þegar við drógum trollbelginn inn á dekkið, til að ná pokanum inn fyrir og upp skutrennuna, rifnaði nokkuð stórt gat á belginn og talsvert af fiski dreifðist um dekkið. Trollinu var lyft upp með því að strekkja það á milli gálganna til að geta komið fiskinum aftur í móttökulúguna sem er staðsett aftast á dekkinu.

Trollpokinn var nú látinn hanga á milli gálga í opnum krókum, svokölluðum gilsum. Undir þessu tókum við karlarnir til við að sópa og moka fiskinum af dekkinu aftur í móttökulúguna.

Þá gerðist það að í einni veltunni, sem skipið tók, að stroffan, sem var vafin utan um trollið í afturgálganum, rann út úr króknum svo að pokinn féll niður og yfir okkur þrjá sem stóðum þarna aftast. Aðrir þrír hásetar voru staddir annars staðar á dekkinu og komust hjá því að lenda undir.

Ég man það mjög vel að þetta var sem betur fer mjúkt farg en aftur á móti mjög þungt. Mér tókst ekki að draga andann fyrst í stað og ég var þess fullviss að ég myndi hreinlega kafna þarna undir.

Félagar mínir komust af sjálfsdáðum undan og sluppu vel, ég var aftur á móti grafinn undir pokanum svo að það tók smátíma að finna mig. Fljótlega náðu félagarnir mér undan og ég fór að geta andað að nýju.

Ég var með fulla meðvitund og fann og sá strax að ég var illa lærbrotinn á hægra fæti þar sem löppin lá út á hlið frá mér. Ég var svo dofinn í byrjun að ég fann engan verk en það átti eftir að breytast þegar ég var settur á sjúkrabörur og færður inn á gang í hitann. Galli og stígvél voru skorin utan af mér og þá kom í ljós að ég var líka ristarbrotinn á vinstra fæti. 

Skipinu var nú snúið til lands og kallað eftir aðstoð þyrlu. Nú hófst illþolanleg bið. Fljótlega var slegið af og skipinu haldið upp í ölduna svo að það stingist ekki í undirölduna með mig þarna svo rosalega kvalinn. Ekkert varð nú til þess að lina sársaukann en sterkasta verkjalyfið um borð var Parkodin forte. Á þessum tíma var búið að banna morfín um borð í skipum vegna misnotkunar á því á árum áður. 

Fljótlega eftir að ég var kominn inn á gang á börunum fékk ég þær góðu fréttir að þyrlan væri á leiðinni til okkar. Hún hefði verið á æfingaflugi yfir Faxaflóa og farið rakleitt til Reykjavíkur að sækja lækni og búnað hans. Ég var orðinn mjög syfjaður, þyrstur og mér var orðið óglatt af kvölunum í fótunum.

Ég vissi að ég mætti ekki sofna og ekki drekka. Ég yrði að anda djúpt og rólega því að hætta kynni að vera á losti, sem getur verið lífshættulegt ástand. Það hjálpaði mér mikið við þessar aðstæður að ég hafði sótt þó nokkuð mörg námskeið í skyndihjálp, bæði sem fyrrverandi meðlimur í björgunarsveit SVFÍ og svo í Slysavarnaskóla sjómanna og gamla Sjómannaskólanum. Vegna þeirrar þjálfunar var ég stundum að róa félaga mína niður meðan á biðinni stóð, fannst þeir vera fullstressaðir á köflum en sérstaklega þó í byrjun. 

Ég man enn þann dag í dag hvað það var notalegt að heyra hljóðið í TF-SIF þegar hún nálgaðist skipið. Það var svo óneitanlega mikill léttir þegar ég sá lækninn og sigmanninn úr þyrlunni standa yfir mér. Ég fékk strax morfínsprautu og fljótlega eftir það var ég settur á börurnar úr þyrlunni, ólaður niður í hana og loks hífður upp til flutnings á Borgarspítalann. 

Ég hef oft hugsað um hvað þyrlur eru mögnuð björgunartæki til sjós og lands, og hvað þessi litla franska Dauphin-vél var ótrúlega seig því þyrlurnar, sem Gæslan notar í dag, eru mikið stærri og öflugri en TF-SIF var. Það er mikil öryggistilfinning sem fylgir því að vita af þessum öflugu tækjum í landi sem alltaf eru klár til aðstoðar ef eitthvað kemur uppá. 

Ég heilsa stundum upp á þessa gömlu „vinkonu“ mína á flugsafninu hérna á Akureyri, lít inn, klappa henni og tek í stýrisstöngina. Hugsa þá: „Hér lá ég og þú sóttir mig þennan örlagaríka dag.““

Myndir/aðsendar