Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin um verslunarmannahelgina, dagana 4.-6. ágúst. Bærinn iðar af lífi og fjöri yfir hátíðina og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Fjölskyldu-, barna-, og kvöldskemmtanir verða haldnar um allan bæ. Landsþekktir listamenn stíga á stokk, tvö tívolí mæta í bæinn og verða á flötinni við Samkomuhúsið, skógardagur verður haldinn í Kjarnaskógi og Sparitónleikar á sunnudagskvöldið. Það verður því heilmikið líf og fjör um allan bæ.

“Við erum stolt af því að hafa fengið með okkur í lið hina mögnuðu Kötu Vignis sem kynni hátíðarinnar en Kata fór með hlutverk Jennýar í söngleiknum Chicago í uppsetningu Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem dansari ársins, en sýningin sló rækilega í gegn og fékk 7 tilnefningar og vann tvær þeirra. Kata mun sjá til þess að gera hátíðina ógleymanlega með okkur,” segir í fréttatilkynningu frá Viðburðastofu Norðurlands.

Sparitónleikarnir í ár verða þeir stærstu hingað til en þar kemur fram landsþekkt tónlistarfólk á borð við Herra Hnetusmjör, Diljá, Friðrik Dór, Pál Óskar, Birki Blæ, Jónas Sig og hljómsveit og marga fleiri. Lofað er alvöru hátíðarstemningu á flötinni við Samkomuhúsið sunnudagskvöldið 6. ágúst.

Allar nánari upplýsingar um viðburði í bænum frá 4.-6. ágúst er að finna á heimasíðu Einnar með öllu.

Forsíðumynd/frá Sparitónleikum á flötinni við Samkomuhúsið. Mynd: Hilmar Friðjónsson.