Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á 226. fundi sínum í gær 8. febrúar 2023 eftirfarandi ályktun vegna fjárhagsvanda Landhelgisgæslu Íslands.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirra fyrirætlana að selja eftirlits-, leitar- og björgunarflugvél Landhelgisgæslu Íslands. Fjallabyggð er í miklu og góðu samstarfi við Landhelgisgæsluna vegna varðskipsins Freyju, sem er með heimahöfn í Fjallabyggð.
Hjá Landhelgisgæslunni starfar fagfólk sem gegnir ómetanlegu hlutverki í eftirlits-, leitar-, og björgunarmálum fyrir landið allt. Með tilkomu Freyju jókst viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar svo um munaði úti fyrir Norður- og Austurlandi.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar beinir því til stjórnvalda að tryggja nauðsynlegt fjármagn til allra rekstrarþátta Landhelgisgæslunnar. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir Ísland að Landhelgisgæslan geti haldið uppi eðlilegum rekstri og ekki þurfi að leigja út búnað eins og flugvélina svo reksturinn haldist innan fjárheimilda.
Mynd/af vefsíðu Fjallabyggðar