Í stafrænum 📡 skýja
ANDVÖKU draumi 💭
Er allt Eitt eða Núll
Af eða Á
Til eða Frá
Eitthvað eða Ekkert
En Aldrei þar á Milli…

Hmm… 🤔

Guð 🙏 hvað ég
Þjáist 😭 af gamaldags…

… Draumalandaferðalaga

Þrá 🥴

Zzzz 😴
Góða nótt 😘

… Ó, takk🙏 kæri vinur 💖 fyrir að þér líkaði 👍 þetta skrítna nútímalega 📲 DIGITAL 😀 Emoi 🌃 ANDVÖKU 🌖 ATOM 🤯Ljóð📜(Skammstafað DEAAL-ljóð) 😉😂

KRAKKAR MÍNIR!

Það er ekki holt fyrir ykkur að stara svona stanslaust ofan í þessi skjátæki… segjum við sem VITUM BETUR og horfum með ströngu þreyttu augnaráði á börnin okkar… með SNJALLSÍMANN OKKAR Í HENDINNI.

Þessi stutti föstudagspistill skapaðist úr minni eigin heimsku, þegar ég varð andvaka enn einu sinni, hérna um daginn.
Þessi orð mín, byrja á stafrænu Atómljóði með fullt af Emoji táknum, en það fer alveg jafnmikið í taugarnar á mér eins og þér…
… þegar fólk nennir ekki að nota ORÐ til að tjá tilfinningar sínar eða tala, skrifa og lesa.

Þó þetta sé bara stutt föstudagshugleiðing, þá eru þessu orð mín líka aðvörun til ykkar allra!

Maður verður ANDVAKA af því að stara of mikið á kvöldin inn í allskyns skjái sem gera okkur næstum sólbrennd með ósýnilegu bláu dagsljósi.

ANDINN í okkur VAKNAR og gerir okkur ANDVAKA.
Því hormónastýrikerfið í okkur heldur að það sé kominn nýr dagur, þó svo að kroppurinn á okkur ÆPI.

Dúllaðu þér upp í rúm og farðu að sofa í hausinn á þér.

Við vitum þetta öll! Eða hvað?
Samt erum við orðin svo háð þessu. Bara aðeins að telja LIKE-in mín… ó, það hefur einhver skrifað komment…
Tik-tak… tik-tak
OMG!
Hvað tíminn líður hratt…. Neimen… hvað er nú þetta… bara aðeins að kíkjaáetta.. smástund bara…

Halló!
Þetta óviðráðanlega hegðunarmunstur okkar er framkallað úr kunnáttu annarra um eldgamalt sálfræðitrikk, sem samfélagsmiðlar og auglýsendur nota óspart á okkur og þá einna helst mest á spilafíklana.

Þegar ég var í Barnaskólanum heima á Siglufirði vorum við blessuð börnin pínd í LJÓSATÍMA einu sinni í viku.
Við sátum í hring með einhverskonar rafsuðu-sólgleraugu og ströng en elskuleg skólahjúkka sem hét Ragna Bachman sat í skjóli inni litlu hornherbergi með stórum glugga. Hún fylgdist vel okkur úr þessu barnafangavarðabúri sem gaf manni barnalega tilfinningu um að þessir ljósgeislar sem bárust frá brummandi sólarlampanum gætu verið hættulegir fyrir fullorðið fólk en mjög hollir fyrir börn.

Þessi elska bankaði reglulega á gluggann og gaf skipanir…. Snúa, vinstri.. bank bank, snúa, bak….
Mér leið stundum eins og lifandi sunnudagssteik inni í þessu þurra lofti sem myndaðist í þessum litla ljósalampa-ofnaklefa.

Hún Ragna var samt það gáfuð að hún grillaði okkur aldrei lengur en 30 mínútur í einu og skammaði mig og aðra í búningsklefanum fyrir að vera ekki í almennilegum ullarnærfatnaði og svo gaf hún okkur líka lýsispillur sem voru nýjasta tækni og vísindi á þessum tíma.
Ég saug yfirleitt af gula sæta húð af þessu tækniundri og spýti svo út úr mér hollustu innihaldinu í afganginum.

Ragnheiður Bachmann ung að árum við dyr Schiöt Apóteks Siglufjarðar. Ljósmyndari óþekktur.

Okkur vantar greinilega svona stranga en velviljaða skóla hjúkku sem hefur vit fyrir okkur og sér til þess að við förum okkur ekki að voða í þessum tæknibyltingartímum sem við lifum í.

En misskilið mig rétt!
Ég, persónulega, þrátt fyrir að vera þekktur fyrir að vera síldarsögunörd og safnari af gömlu ANALOG drasli. Þá er ég algjör tæknitrítill og ég elska þessi stafrænu tæki og tól.

Þau tala við mig og ég við þau.

En stundum er þjónustuviljinn hjá sambýliskonunni minni henni SIRÝ alveg óþolandi og gjörsamlega að fara með mig og ég hef hótað að bæði henda henni út og SLÖKKVA á henni.

Held það sé bara nokkuð góð lausn, til að koma í veg fyrir að verða aftur og aftur ANDVAKA.

Sirý mun ekki mótmæla, því hún hefur í rauninni engan eigin vilja…
og greinilega ekki ég sjálfur heldur.

AMEN

Eigið góða og holla stafræna helgi.

Nonni Björgvins.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Ljósmyndir eru lánaðar úr opnu myndasafni Microsoft Word.
Ljósmynd Ragna Bachman. Birt með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Aðrar sögur, myndasyrpur og pistlar eftir sama höfund finnur þú hér á trölli.is:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON