Anton Guðmundsson gaf út þann 12. janúar síðastliðinn plötuna Augnablik.
Anton er fæddur og uppalinn í Grindavík. Ungur byrjaði hann að spila á gítar, eða níu ára gamall og þá var það pabbi hans, Guðmundur Þorsteinsson, sem kenndi honum fyrstu gripin.
Á grunnskólagöngu sinni tók hann þátt í að stofna skólahljómsveit sem fékk nafnið Bigalow. Anton samdi á þeim tíma lag sem hljómsveitin gaf út og var sett á Spotify árið 2008. Lagið “Ég spyr” og var tekið upp í stúdíó Geimsteini og var í umsjón Rúnars Júl á sínum tíma.
Eftir að hafa samið þetta lag var Anton kominn á bragðið og hefur síðan þá verið að semja lög og skrifa texta.
Vorið 2022 áttaði hann sig á því að hann gæti sameinað tvenn stór tímamót. Annars vegar að gefa út efni sem hann átti í heila plötu og hins vegar að halda upp á þrítugs afmælið sitt. Og hvað er betra en að gefa út sína fyrstu breiðskífu á þrjátíu ára afmælinu sínu?
Langafi Antons er Guðmundur Böðvarsson skáld frá Kirkjubóli í Hvítársíðu, eða “skáldið sem sólin kyssti” eins og hann var oft kallaður. Á plötunni er að finna tvo texta eftir Guðmund.
Platan verður spiluð í heild sinni í þættinum Tónlistin á FM Trölla klukkan 13:00 til 14:00 í dag. Einnig munu heyrast kynningar Antons á lögunum og plötunni.