Heilbrigðisráðherra hefur með reglugerð skilgreint apabólu sem tilkynningarskyldan sjúkdóm. Grunur er um tvö tilfelli apabólu hér á landi en beðið er staðfestingar á þeirri greiningu. Sóttvarnalæknir hefur lagt til ákveðin viðbrögð af hálfu embættis síns og heilbrigðiskerfisins til að lágmarka útbreiðslu apabólu hér á landi. Áhersla er lögð á fræðslu og upplýsingagjöf og leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsfólks og almennings um smitleiðir, áhættuþætti, einkenni, greiningu og aðgerðir ef einstaklingar veikjast. Sóttvarnalæknir telur ekki þörf á að grípa til opinberra sóttvarnaráðstafana á borð við samfélagslegar takmarkanir eða skimun fyrir sjúkdómnum.
Apabóla er veirusjúkdómur og er veiran náskyld bólusóttarveiru sem veldur bólusótt. Sjúkdómurinn er vel þekktur og landlægur í Mið- og Vestur Afríku. Undanfarnar vikur hafa greinst yfir 1000 tilfelli apabólu í 20 Evrópulöndum og átta löndum utan Evrópu þar sem sjúkdómurinn er ekki landlægur. Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar fyrir almenning og heilbrigðisstarfsfólk um sjúkdóminn og aðgerðir gegn honum. Eins og þar kemur fram líða jafnan 1-2 vikur frá smiti og þar til einkenna verður vart. Einkennin eru flensulík í byrjun, síðar koma fram útbrot sem líkst geta hlaupabólu eða sárasótt. Alvarleg veikindi eru sjaldgæf í um 90% tilvika og oftast gengur sjúkdómurinn yfir af sjálfu sér án meðferðar.
Heilbrigðisráðuneytið, í samráði við Lyfjastofnun, vinnur að því að fá hingað veirulyf og bóluefni sem gætu gagnast völdum einstaklingum gegn sýkingunni. Sóttvarnalæknir mælir með því að ef einstaklingar greinast með apabólu verði þeir skyldaðir í einangrun í allt að þrjár vikur, eða þar til smithætta er yfirstaðin.
Heilbrigðisráðherra hefur kveðið á um það með breytingu á reglugerð um skýrslugerð vegna sóttvarna nr. 221/2012 að apabóla skuli vera tilkynningarskyldur sjúkdómur. Í reglugerðinni eru taldir skráningar- og tilkynningarskyldir sjúkdómar í samræmi við sóttvarnalög. Af skráningarskyldum smitsjúkdómum eru þeir sjúkdómar tilkynningarskyldir sem ógnað geta almannaheill. Skylt er að senda sóttvarnalækni upplýsingar um skráningar- og tilkynningarskylda sjúkdóma.
Náið samráð verður haft við Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins um viðbrögð við sýkingum af völdum apabólu.
- Leiðbeiningar sóttvarnalæknis til heilbrigðisstarfsfólks
- Leiðbeiningar fyrir almenning
- Reglugerð um 3. br. á reglugerð nr. 221/2012 um skýrslugerð vegna sóttvarna
- Reglugerð nr. 221/2012 um skýrslugerð vegna sóttvarna
Mynd/ CDC