Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti landsmönnum áramótaávarp sitt í gærkvöldi

Í ávarpinu fór forsætisráðherra yfir stöðu mála og þau krefjandi verkefni sem bíða nýrrar ríkisstjórnar. Forgangsmál sé að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og stuðla að lækkun vaxta með styrkri stjórn ríkisfjármála.

Forsætisráðherra ræddi einnig um áskoranir í velferðarmálum sem snúa meðal annars að heilbrigðisþjónustu, húsnæðisöryggi, umönnun eldra fólks og þjónustu við börn og um þá viðsjárverðu tíma sem nú eru á alþjóðavettvangi.

Forsætisráðherra sagði niðurstöður þingkosninganna hafa verið skýrt ákall um breytingar og að ríkisstjórnin gangi samstíga til þeirra verka sem framundan eru.

„Nú er von í lofti og segja má að andi breytinga svífi yfir vötnum í íslensku samfélagi. Við vitum að tækifæri okkar eru stórfengleg. Við vitum líka að verkefnin eru stór og blasa hvarvetna við okkur. En við ætlum að takast á við vandamálin í sameiningu og leysa þau eftir fremsta megni.“

Áramótaávarp forsætisráðherra

Mynd/aðsend