Það er eins og að lífið sjálft eigi afmæli um áramót!

Þessi tímamót, fá okkur til að hugsa til baka og samtímis inn í ókomna framtíð. Ég hef heyrt sögur, um að hlutverk áramóta brennunnar, sé að hjálpa til við að gamla árið og það nýja bráðni betur saman. Svona rétt til þess að þessi tímamót verði meira átakalaus og okkur til ánægju.

Samt er þetta einnig áminning um að á komandi ári, verð ég einu ári eldri, færist nær þessum óundanvíkjanlega ENDI, sem tilheyrir lífinu. Þannig eru áramót líka sjálf lífsklukkan og oftast finnst okkur hún ganga… allt of hratt.

Áramót er áminning til okkar allar að okkur er: Skammtaður ákveðin lífs tími!
Það er einhverskonar skyldumæting í að gera eitthvað af viti með þennan takmarkaða tíma. Þetta skapar angist og oft á tíðum löngun í að gefa sig inn í hugsanir um STÓR NÝÁRSLOFORÐ!

Um allt og ekkert sem við gleymdum að gera í fyrra…

Á netspjalli hér um daginn, sagði ég við góðan vin, um einmitt áramóta heiti! Eitthvað um að ég yrði að fara að venja mig af þeim ósið að HUGSA SVONA MIKIÐ UPPHÁTT, í tali og skrifum.

Nei, nei, elsku Nonni minn, það máttu alls ekki gera. Þetta blæti hjá þér er svo mikið ÞÚ.
Svo bætti hann við: Guði sé lof að við manneskjur eru margskonar, pældu í því hvað lífið væri leiðinlegt ef allir væru eins.

2025 verð ég 63 ára og í fyrsta skiptið á ævinni er ég farinn að hugsa út í einkennilega hluti eins og t.d. eftirlaun og um komandi gleðiár, þar sem ég þarf ekki lengur að stimpla mig inn í skyldumætingu í atvinnu-lífið. Ég reyni að sjá fyrir mér að ég sé ekki lengur þræll dagatalsins og líf-klukkunnar og að mín bíði:

Laugardaga-sæla og sælgæti alla daga vikunnar…

Meiri tími og frjálsræði í að vera með barnabörnum og í samveru með vinum og vandamönnum…. en líka að hafa loksins meiri tíma í að skrifa fleiri sögur.

Að skrifa og segja sögur virðist vera með fædd árátta og ég þarf ekkert að fara til sálfræðings, til þess að að rannsaka hvaðan þetta sögu-blæti mitt kemur. Ef maður er fæddur í sögufrægum síldarsögu firði, þá fá allir Siglfirðingar, nær og fjær og afkomendur þeirra, svona söguvírus í sig með móðurmjólkinni.

Stafræna gleðiárið 2024!

Fyrir Siglfirðinga með heimþrá, er ný stafræn tækni, draumur í dós. Ég hef farið í marga stafræna göngutúra heima á Sigló, í hendinni á frænda mínum og þannig verið honum samferða í sögum og spjalli um allt það sem hefur breyst og allt sem er þarna enn þá.

Í söguskrifa grúski mínu, er ég einnig í stanslausum stafrænum samskiptum og samvinnu við aðra, gegnum netspjall og samtöl sem kosta ekki neitt. Sama gildir um leit að heimildum og myndum, að þá eru landamæri og vegalengdir engin hindrun lengur og ekki ólík tungumál heldur.

Hér hjálpar mér oft stafræn gervigreind, sem ég þekki í rauninni ekki persónulega með nafni, en HÚN er þarna með okkur í ýmsum daglegum þörfum okkar í samskiptum.

Covid tímabilið kenndi okkur að hittast öðruvísi.

En stafrænn hittingur, mun auðvitað aldrei gefa okkur jafn mikið og sú vellíðan sem það gefur kropp og sál að faðma vini og ættingja í eigin persónu.
Ástæðan fyrir því að ég nota hér milli fyrirsögn um „stafræna gleði“ er að á liðnu ári hefur stafræn tækni og allskyns snjalltækja samskipti gefið mér mikið.

Engin nefndur og þá engin gleymdur… en þó verð ég að nefna einn, sem ætíð hjálpar mér mest og er mér mikið kær. Hann heitir Steingrímur Kristinsson, sögusafnari, ljósmyndari o.fl. o.fl…
Hann er 90 ára gamalt stafrænt tæknitröll, frá Tröllaskaga, hann leikur sér daglega með gervigreind í myndvinnslu og er hann þá á eigin sköpuðum endurmennturnar námskeiðum í nýrri ljósmynda vinnslutækni. Steingrímur er reyndar búinn að æfa sig í 80 ár. Þetta heldur honum ungum í anda og sýnir okkur að meira segja þeir sem eru löngu búnir að fá doktorsgráðu í Lífinu EHF á Sigló, geta enn lært eitthvað nýtt og spennandi.

Oft finnst okkur að allt mögulegt séu alveg sjálfsagðir hlutir, eins og t.d. að geta smellt á vefslóðir og fengið til okkar útvarpsþætti, fréttir og sögur frá Sigló. Trölli.is er merkilegt stafrænt fyrirbæri og stafrænn arftaki Sigló.is.
Efnið sem birtist ykkur ókeypis á trölli.is er framleitt í sjálfboðavinnu út um allan heim og lesendur og hlustendur eru líka að stærstum hluta, EKKI staddir eða búsettir á Siglufirði.

Stafræn tækni gerir þetta mögulegt, að bæði ég og aðrir, erum með vinnandi AVATAR persónur, heima í firðinum fagra og þau TRÖLLAHJÓNIN, Gunnar Smári Helgason og Kristín Magnea Sigurjónsdóttir, halda vel utan um sína ósýnilegu stafrænu starfsmenn.

Siglufjörður er hálf sérkennilegt sögulegt fyrirbæri og enginn getur sett tölu á hvað Siglfirðingar eru margir í rauninni. Því hér megum við ekki gleyma öllum þeim sem hafa búið þar, unnið í síldinni, hitt ástina upp í Hvanneyrarskál, sem og alla aðflutta og brottflutta og þeirra afkomendur, sem í dag, með stolti, telja sig með réttu vera alvöru Siglfirðinga. Þetta er bær sem alla tíð hefur boðið alla velkomna … og sagan, já sagan…. Segðu…

Fleiri hundruð kíló af Sigló sólskini, kjaftshöggum og sunnudaga sögum.

Takk 🙏 Hallgrímur Helgason.

Stolt siglir Siglósögu fleygið okkar allra!

2024 er stórt Siglósöguár og eru þær sögur sagðar jafnt í bókum sem netsögum og ekki síst í spjalli okkar á milli í stafrænu formi, sem og í alvöru eldhús partíum, hvar svo sem Siglfirðingar hittast.

Stolt okkar og sameiningartákn okkar allra er þó Síldarminjasafn Íslands og allt umhverfið þar um kring. Aðdáun mín og allra sem þangað koma í heimsókn, er takmarkalaus aðdáun á sögunni sem þar er sögð. Á þessu ári er kannski loksins húsnæðis uppbyggingu lokið, með formlegri opnun á starfsemi í Salthúsinu.

Síldar og Siglósögu framtíðin er björt og hér er til endalaus sögufjársjóður, í þínum, jafnt sem mínum sögum, það mikilvæga er að halda áfram að segja sögur, þannig lifir fortíðin og þannig kemst sagan okkar allra, áfram í framtíðar kynslóðir. Því ef þú veist hvaðan þú kemur, þá veistu sjálfkrafa hvert þú villt fara í þinni framtíð 2025… og um alla eilífð, þar á eftir.

Lífið er það sem þú velur að gera úr því.. og ef það er eitthvað, þá er það mest BREYTILEGT og við getum svo sem dagdreymt okkur inn í fagra framtíð um þessi áramót líka.
Þannig sköpum við oft okkar eigin vonbrigði og vanlíðan. Staðreyndin liggur í orðinu dag-DRAUMUR, en margar sögur koma reyndar úr draumum og eru ekki minni sannar fyrir Það.

Undirritaður óskar öllum gleðilegs söguárs 2025 og þakkar öllum lesendum á trölli.is fyrir lestur á mínum sögum, greinum o.fl. og fyrir skemmtilegar viðbótarsögur sem mér berast svo oft strax eftir birtingu . Við skulum halda áfram í sama sögudeilingaspori, það mikilvæga er að þora að taka þátt og við skulum muna:

Að lokum verðum við öll SÖGUR!

Bestur Siglósaknaðarkveðjur og áramótakveðjur til ykkar allra.

Nonni Björgvins

P.s. Lífið verður oftast ekki eins og við hugsuðum það!

Mín ævisaga varð t.d. allt öðruvísi, en ég hafði hugsað mér, þegar ég var barn heima á Sigló á síðustu öld og mig dreymdi um að gera ýmislegt, bar í mér drauma og svona ÞEGAR ÉG VERÐ STÓR hugsanir og mér finnst stundum eins og að þetta undarlega gamla barnalag sé samið um mig..

…og um einmitt áramót og á nýársdag erum við öll með:


⭐️ Stjörnur í skónum!

Mynd og lag lánað frá YouTube.com.

Lagið um: Það sem ég vil… eða

þegar ég verð stór

þá ætla ég

að fara í flugvél til útlanda

og sjá hermenn og indjána,

og borða aldrei…,

… nema

súkkulaði og banana…

… Þegar ég verð stór…

Ætla ég að tala

bæði dýramál

Og útlensku…

Gleðilegt ár!

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá útgefanda bóka og frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Stafræn ljósmynd er endurunnin og fengin að láni frá opnu myndasafni Microsoft Word.