Einn stærsti útgjaldaliður heimila er leiga eða afborgun húsnæðislána. Í ljósi aðstæðna sem nú hafa áhrif á atvinnu og afkomu fjölmargra heimila hefur ASÍ lagt ríka áherslu á að bankar, lífeyrissjóðir og aðrir kröfuhafar komi til móts við fólk í þessum erfiðu aðstæðum. Að þeir sýni sanngirni, sveigjanleika varðandi greiðslufresti og innheimtukostnað á meðan óvissuástand stendur yfir. Lánastofnanir og leigufélög hafa flest kynnt úrræði til að létta byrði heimila um sinn m.a. með því að bjóða upp á tímabundnar frestanir afborgana eða tímabundna frestun á leigu.
Hér að neðan er að finna um helstu skilmála og kostnað þessara úrræða hjá stærstu lánveitendum húsnæðislána.
Alþýðusambandið brýnir fyrir lánveitendum að hafi ávallt að leiðarljósi að upplýsa einstaklinga með skýrum og greinagóðum hætti um áhrif þeirra úrræða sem í boði eru á greiðslubyrði til skamms og langs tíma. Hvaða leiðir séu færar til að draga úr langtímaáhrifum á fjárhag heimilanna. Þá skuli öllum kostnaði sem innheimtur er vegna úræðanna haldið í algjöru lágmarki og neytendur vel upplýstir um hann.
Frestun á greiðslum húsnæðislána
Lánastofnanir bregðast nú við fyrirsjáanlegri lækkun á tekjum margra heimila með því að gefa kost á á frestun greiðslna af fasteignalánum. Frestun er einkum sett fram sem möguleiki fyrir þá sem nú verða fyrir tekjufalli. Lánastofnanir setja ólík skilyrði fyrir greiðslufresti. Sumar óska eftir að sýnt sé fram á tekjufall á meðan aðrar fela viðskipavinum sjálfum að meta þörfina fyrir greiðslufresti. Í flestum tilfellum býðst greiðslufrestun ekki ef vanskil voru til staðar fyrir kórónuveirufaraldur. Lánveitendur bjóða mislanga frestun greiðslna, allt frá þremur mánuðum upp í heilt ár.
Kostnaðurinn við að fresta greiðslum húsnæðislána er mismikill eftir lánveitendum. Fyrst þegar frestunarúrræði voru kynnt fylgdi þeim talsverður kostnaður hjá flestum lánastofnunum en margir hafa nú lækkað kostnaðinn vegna kröftugra mótmæla m.a. frá ASÍ. Nokkrir lánveitendur hafa alveg fallið frá því að taka umsýslugjöld.
Við frestun greiðslna af lánum þarf að gera skilmálabreytingu á skuldabréfi. Ekki verður komist hjá því að greiða 2.500 kr. Þinglýsingargjald sem Sýslumaður innheimtir. Kalla getur þurft eftir veðbandayfirliti og kostnaður af því er um 1.000 – 1.500 kr. Einhverjar lánastofnanir taka umsjónagjald vegna þinglýsingar, sem komast má hjá með því að sjá sjálfur um að koma skjölum til Sýslumanns. Gjaldið er oftast á bilinu 1.000 – 1.500. kr. Þá innheimta lánastofnanir að jafnaði skjalagerðar- eða skilmálabreytingagjald en hluti lánastofnanna hefur nú fallið frá þeim gjöldum eða lækkað þau.
Kostnaður við greiðslufrest lána | Þinglýsingar-gjald | Veðbókar-vottorð | Skjalagerðargj./ skilmálabreytingagj. | Gjald v/ þinglýsingar | Hámarks lengd í mánuðum | |
LIVE | 2.500 | 1.200 | 0 | 1.500 | 6 | |
LSR | 2.500 | 1.200 | 2.500 | 1.500 | 12 | |
Gildi | 2.500 | 1.200 | 3.000 | 950 | 6 | |
Brú | 2.500 | – | 15.000 | – | 6 | |
Birta | 2.500 | 2.000 | 5.000 | 950 | 6 | |
Festa | 2.500 | – | 10.000 | – | 6 | |
Stapi | 2.500 | 2.000 | 5.000 | 1.500 | 6 | |
HMS | 2.500 | – | 0 | – | 3 | |
Arion | 2.500 | 1.055 | 0 | 0 | 3 | |
Íslandsbanki | 2.500 | 1.550 | 0 | 950 | 7 | |
Landsbankinn | 2.500 | – | 0 | 0 | 6 |
Upplýsingarnar voru sóttar 1. apríl 2020. Hægt er að smella á hlekkina og fá nánari upplýsingar um úrræði á heimasíðu viðkomandi lánveitanda.
Flest úrræði um greiðslufrest eru þannig að ekkert er greitt af láni á frestunartímabili. Vextir reiknast eins og vanalega en í stað þess að greiðast mánaðarlega leggjast þeir ofan á höfuðstól láns að loknu tímabili greiðslufrests. Greiðslubyrði lána verður hærri þegar greiðslur hefjast aftur bæði vegna þess að borgað er af láni á skemmri tíma og vextir frestunartímabilsins leggjast við höfuðstól. Sumar lánastofnanir bjóða þó uppá að greiða vexti og verðbætur meðan greiðslufrestur stendur yfir. Í þeim tilvikum er einungis afborgun höfuðstóls frestað. Höfuðstóllin vex þá ekki á frestunartímabilinu en hann greiðist á skemmri tíma eftir frestun sem hækkar afborganir í framhaldinu en þó minna en þegar ekkert er greitt. Sumar lánastofnanir lengja einnig í lánum samhliða frestun og þannig er dregið úr hækkun á greiðslubyrði þegar greiðslur hefjast á ný.
Frestun leigugreiðslna hjá leigufélögum
Hjá leigufélaginu Ölmu er boðið uppá að fresta hluta af allt að þremur leigugreiðslum og hjá Heimavöllum stendur til boða að fresta hluta af sex greiðslum. Þeim greiðslum sem er frestað má svo dreifa á allt að 24 mánuðum hjá báðum félögunum. Bæði félögin bjóða uppá að lækka leigugreiðslur tímabundið um að hámarki helming umsaminnar leigu. Greiðsludreifingin er leigutökum að kostnaðarlausu og án vaxta.
Rétt er að hafa í huga að þessar frestuðu greiðslur dreifast á mun skemmri tíma en frestanir þeirra sem eru að borga af lánum. Leigugreiðslur eftir frestunartímabil verða því töluvert hærri en fyrir. Sé t.a.m. helmingi leigu frestað í 6 mánuði og þeirri frestun svo að þeim tíma liðnum dreift á 24 mánuði þýðir það 12,5% hækkun leigu á því tímabili. Ef frestuninni er dreift á 12 mánuði hækkar leigan um 25% á meðan frestunin er greidd upp.
Heimild: ein.is