Slysavarnadeild kvenna á Siglufirði, slökkvilið, lögregla, sjúkraflutningamenn og björgunarsveitin Strákar minntust fórnarlamba umferðarslysa síðdegis í gær með táknrænum hætti við kirkjutröppur Siglufjarðarkirkju.

Tónlistarkonan Eva Karlotta söng tvö lög, kveikt var á friðarkertum upp kirkjutröppurnar og gerð var einnar mínútu þögn til minningar um þá sem hafa látist hafa í umferðinni. Að því loknu var kveikt á blysum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915, höfðu þann 15. nóvember 2021, samtals 1592 einstaklingar látist í umferðinni á Íslandi.

Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Segja má að allt samfélagið deili með sér alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð.

Vegna slæmrar veðurspár var samskonar viðburði frestað á Ólafsfirði – Mun hann skipulagður á næstu dögum.

Myndir og heimild/mynd/ Slökkvilið Fjallabyggðar