Tvö atriði
Siglufjörður – saga bæjar
Um tvö atriði í 4. og 5. sjónvarpsþætti – það fyrra um strákaleiki á bryggjunum og seinna um stöðu útgerðar á Siglufirði um 1970.
Stangarstökkið
Í fjórða sjónvarpsþættinum var undirritaður beðinn að segja frá sérstæðum leikjum sem Valbjörn Þorláksson og félagar hans fundu upp á og léku í höfninni hér áður fyrr. Við slíkar aðstæður, þegar lítið ráðrúm gefst til umhugsunar, getur eitthvað misfarist í frásögninni – og það gerðist í þetta sinn.
Leikurinn var fólginn í því að fara endanna á milli í höfninni stóru án þess að snerta jörð eða bryggju. En þarna varð mér á að segja að þeir hafi stigið á bryggju. Minn góða heimildarmann og frænda, Steingrím Kristinsson vin Valbjarnar, bið ég afsökunar.
Hér er sagan sögð rétt eða eins og Steingrímur sagði hana og birt er í bókinni Svipmyndir II, bls. 42:
Svo var það landleguferðin mikla sem strákarnir fóru milli báta og skipa eftir endilangri höfninni. Í brælum leitaði síldarflotinn hafnar en oft gat þá verið gott veður inni í firðinum. Þá fundu þeir upp nýja íþróttagrein sem aðrir strákar áttu líka eftir að spreyta sig á. Þetta var í raun mikil þrekraun sem byrjaði á skipunum sem lágu við Syðstubryggju. Frá einum borðstokk til annars fikruðu þeir sig, stukku eða klifruðu á landfestingartógum, alla leiðina út í Dokk, síðan fyrir bryggjurnar sunnan á Eyrinni, Hafnarbryggjuna og þaðan alla leið út á Öldubrjót. Eins og hálfs kílómetra leið án þess að stíga fæti á bryggju – fram hjá fjörutíu löndunarbryggjum þar sem hundruð báta, stórir og smáir, lágu bundnir hverjir utan á öðrum. Hálfur flotinn var íslensk skip, önnur voru norsk, sænsk, finnsk, dönsk og færeysk. Þetta var ekki alltaf auðleikið, og stundum urðu þeir að gefast upp á miðri leið, en í stærstu landlegunum tókst þeim iðulega að ná lokamarkinu, Öldubrjótnum. Oft náðu þeir ekki í stökki milli nótabáta eða misstu jafnvægið á kaðalgöngu en rennandi blautir héldu þeir áfram, þessir fimu og stæltu piltar. Fremstur fór Valbjörn, leiðtoginn í þessari óvenjulegu íþrótt sem hvergi var hægt að iðka á jafn stórbrotinn hátt og í skipamergðinni á Sigló. Oftast fann hann í upphafi ferðar bambusstöng sem hann tók til handargagns til að létta sér stökkin. Í stangarstökki milli skipa var hann ókrýndur Íslandsmeistari – ef ekki Norðurlandameistari!
Um útgerð á Siglufirði 1960-70
Í fimmta sjónvarpsþættinum, Siglufjörður – saga bæjar, var nokkuð fjallað um lok síldartímans, þegar síldin hvarf og allt umbreyttist á staðnum. Þar var sagt frá stöðu siglfirskrar útgerðar um 1970 og afskiptum bæjarstjórnenda af endurreisn atvinnulífsins. Hér er grafist lauslega fyrir um skipafjöldann siglfirska sem stundaði síldveiðar á þessu síðasta skeiði og lýst skoðun á þætti bæjarstjórnenda í endurreisn atvinnulífsins.
Ekki er vitað til að þessi saga hafi verið skráð sérstaklega en hér er þetta sem örsmár vísir að þeirri rannsókn og ritun sem þyrfti að fara fram á útgerðarsögu Siglufjarðar frá 1850 til 2020.
Síldarleysið og sjálfsbjargarviðleitnin
Síldarleysisárin svokölluðu stóðu u.þ.b. frá 1947-1957. Þá hófst hin langvarandi barátta heimamanna fyrir því að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf staðarins en síldin ein bauð uppá. Síðan hvarf síldin endanlega frá okkur á árunum 1965-69. Hvar áttuðu menn sig betur á síldarhvarfinu og öllu atvinnuleysinu sem því fylgdi en á Siglufirði? Hér hafði verið glímt við síldar- og atvinnuleysi lengi – eða eins og fólksflóttinn og íbúafækkunin sem hófst um 1950 ber með sér. Og sífellt var viðleitnin sú að reyna að gera eitthvað til bjargar hvort sem það voru einstaklingar á einkavegum eða bæjarstjórnendur sjálfir. Og nær stöðugt var sótt til ríkisvaldsins til aðstoðar, allt frá Elliða SI 1 árið 1947 til stofnunar Þormóðs ramma hf 1970.
Að auki sjáum við fyrir okkur hér á staðnum Tunnuverksmiðjuna, lagmetisiðju Sigló, frystihúsið stóra, Loftskeytastöðina, Skattstofuna, höfuðstöðvar SR og Síldarútvegsnefndar. Allt á vegum ríkisins.
En hvað um einkareksturinn?
Útgerðin
Hvernig var útgerð stórra fiskiskipa háttað á Siglufirði á 7. áratugnum? Hér er miðað við stór og meðalstór skip sem stunduðu síldveiðar á sumrin.
- Bæjarútgerð (sem ríkið síðan yfirtók) – einn síðutogari lengst af þessa áratugar, Hafliði SI 2. (stál- 677 brl). Misheppnuð tilraun til síldveiða á 6. áratugnum.
- Vilhjálmur Hjartarson ofl. gerðu út Særúnu SI 50 (tré- 51 brl) 1942-1966.
- Sædís hf gerði út Sigurð SI 90 (tré- 95 brl) – 1946-1967
- Vigfús Friðjónsson gerði út Margréti SI 4 (stál- 250 tn) frá 1959-1971, fyrri helming tímabilsins frá Siglufirði. Hann fór og tók útgerðina með sér.
- Daníel Þórhallsson átti Hring SI 34 (stál- 64 brl) ásamt Guðm. Runólfssyni frá 1955. Útgerðin flutt til Grundarfjarðar um miðjan 7. áratuginn.
- Skeggi hf gerði út Hringsjá SI 89 (stál- 179 brl) 1961-1963. Smíðað 1912.
- Ver hf gerði út Strák SI 145 (tré- 59 brl) 1962-1965.
- Æskan hf – Æskan SI 140 (tré- 82 brl) – stutt útgerðarsaga frá 1963.
- Siglfirðingur hf átti Siglfirðing SI 150 (stál- 240 brl) 1964-1970.
- Þráinn Sigurðsson átti Önnu SI 117 (stál- 150 brl) og Sigurbjörgu SI 275 (stál- 200 brl) með Þórði Guðjónssyni skipstjóra á Akranesi. Útgerðin flutt til Akraness um 1968.
Öll þessi siglfirsku skip voru gerð út á síld á sumrin og þorskveiðar á vetrum. Svo virðist sem ekkert þeirra hafi átt heimahöfn á Siglufirði eftir 1970. Eina skipið af þeim sem hér eru talin upp og lá við bryggju á Siglufirði á nýársdag ´71 var Hafliði SI 2, aflóga ryðkláfur!
Á þeim tíma hófu reyndar nýir útgerðarmenn að kaupa skip og gera út frá Siglufirði. Togskip hf keypti Dagnýju SI 7 fyrsta “skuttogara” á Íslandi. Ragnar Ólafsson og Þórður Þórðarson í Hrímni gerðu út Hlíf SI eftir 1971. Númi Jóhannsson ofl voru með Tjald SI.
Undirritaður telur enga ástæðu til að efast um þátt bæjarstjórnenda, hvar í flokki sem þeir stóðu, til að koma að liði gagnvart einkaframtakinu eða að hafa forgöngu um stórátak í uppbyggingu atvinnulífsins eins og stofnun Þormóðs ramma hf árið 1970 sannarlega var. Ótal skjöl og fundargerðir vitna um þá sögu. Um fyrstu ár Þormóðs ramma má lesa í bókinni Siglufjörður 1818-1918-1988.
Við þessa lauslegu skoðun á útgerðarsögu okkar vaknar stór spurning: hvernig stóð á því að útgerð skipa í einkaeigu eða “félagslegri” var svona veik (í landsins bestu höfn) á Siglufirði meðan aðrir nálægir staðir blómstruðu?
Stundum var sagt að einkarekstur á Siglufirði hafi ekki þrifist í skugga ríkisins – ríkisvaldsins! Hafa einhver rök verið færð fyrir þessari kenningu?
Voru Siglfirðingar eitthvað slakari eða óheppnari í útgerð en aðrir? Síðari tíma reynsla hefur reyndar sannað fulla hæfni heimamanna.
Líklegt má telja að hér skipti miklu máli aðgangur að fjármagni og hversu djúpt rætur útgerðanna stóðu.
Í þessu sambandi má nefna að sé saga útgerðar á Siglufirði skoðuð lengra aftur í tímann þá virðist það sama einkenna fyrri áratugi og þann sjöunda, útgerðir og skip voru sífellt að koma og fara. Engin fyrirtæki festu rætur og fá urðu eldri en 20 ára.
Hvað var að gerast í nágrannabæjunum?
Í umræddum sjónvarpsþætti var gerður samanburður við nágrannabæina – og það er líklegast ekki svo galið. Hvernig var þá útgerð í Ólafsfirði háttað? Við afar erfið hafnarskilyrði blómstruðu þrjár útgerðir á 7. áratugnum með stór skip á þeirra tíma mælikvarða – nútímaleg stálskip (200-250 brl) sem stunduðu síldveiðar og þorskveiðar á víxl ár hvert. Tvær útgerðanna höfðu starfað frá því fyrir 1920 og stóðu traustum fótum.
Eftirtalin skip voru í eigu Ólafsfirðinga árið 1970 (og fleiri og enn stærri skip, sum með sömu nöfnum, áttu eftir að bætast í þann flota) Guðbjörg ÓF, Sigurbjörg ÓF, Ólafur bekkur ÓF, Sæþór ÓF.
Á Dalvík áttu þessi stóru stálskip heimahöfn 1970: Björgúlfur EA, Björgvin EA, Bjarmi II EA, Hannes Hafstein EA, Loftur Baldvinsson EA – í eigu fjögurra útgerða.
Á Húsavík var sambærileg staða svona: Helgi Flóventsson ÞH, Dagfari ÞH, Héðinn ÞH, Náttfari ÞH.
Í þessum þremur nágrannabæjum blómstruðu einkareknar útgerðir og menn voru fullkomlega reiðubúnir að mæta nýjum aðstæðum í útgerð skipa sinna. Sem sagt, á þessum stöðum héldu útgerðirnar áfram þótt síldin hyrfi.
Það væri mikilvægt að sögugrúskari eða sagnfræðingur rýndi rækilega ofan í útgerðarsögu Siglufjarðar og birti það sem óyggjandi er og rétt.
Heimildir: Íslensk skip 1.-3. bindi.
Samtöl við fólk.
Texti og vatnslitamyndir: Örlygur Kristfinnsson