Landsréttur hafnaði kröfu Atla Helgasonar um að fella niður sviptingu á málflutningsréttum hans. Dómurinn sneri þar með við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því 16. maí síðastliðinn, þar sem svipting á lögmannsréttindum Atla var felld niður. Verður Atli því áfram sviptur lögmannsréttindum sínum.
Atli var dæmdur í sextán ára fangelsi árið 2001 fyrir að hafa orðið Einari Erni Birgissyni að bana og var þá einnig sviptur málflutningsréttindum. Fyrir rúmum tveimur árum hlaut Atli uppreist æru en óflekkað mannorð er meðal skilyrða þess að hafa málflutningsréttindi.
Í niðurstöðu Landsréttar segir m.a. að brýnt sé að almenningur beri traust til lögmanna. Þótt 17 ár séu nú liðin frá því að dómur féll í manndrápsmálinu, sjö ár frá því að Atla var veitt reynslulausn og þrjú ár frá því að reynslutíma lauk sé enn varhugavert að slá því föstu að hann hafi áunnið sér það traust sem lögmenn verða að njóta.
Þá er einnig litið til þess í niðurstöðu réttarins að bú Atla hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2001. Þannig uppfylli hann ekki almenn skilyrði um að bú hans hafi aldrei verið tekið til gjaldþrotaskipta. Lögmannafélag Íslands hafi jafnframt hafnað því að mæla með að Atla verði veitt undanþága frá áðurnefndu skilyrði. Ætli Atli sér að starfa sem lögmaður að nýju verði slík meðmæli að liggja fyrir.
Þá sé synjun Lögmannafélags Íslands ítarlega rökstudd og þar vísað til þess að Atli hafi gerst sekur um manndráp, ekki gætt að reglum um fjárvörslu lögmanna, veitt ónógar upplýsingar um fjárhag sinn og kaup á tilteknum fasteignum. Að auki krefjist almannahagsmunir þess að Atli sé sviptur lögmannsréttindum enda byggist sviptingin á nauðsyn þess að almenningur beri fullt traust til þeirra sem starfinu gegna.
Af visir.is