Á fyrsta ársfjórðungi 2019 reyndist atvinnuþátttaka vera að jafnaði 81% af mannfjölda, eða að meðaltali um 205.700 manns. Þar af töldust að meðaltali 6.200 manns vera atvinnulausir eða um 3,0%. Á sama tíma voru um 3.500 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,5% starfa, samanber áður útgefnar tölur. Atvinnulausir eru því um tvöfalt fleiri en fjöldi lausra starfa.

Atvinnuleysi stóð nokkurn veginn í stað frá fyrsta ársfjórðungi 2018. Mælt atvinnuleysi var 0,1 prósentustigi hærra, sem er innan skekkjumarka. Hlutfall starfandi stóð einnig í stað frá síðasta ári.

Um 48.900 mannst töldust utan vinnumarkaðar á fyrsta ársfjórðungi 2019. Um 30% þeirra voru eftirlaunaþegar eða um 14.400 manns. Þar á eftir voru námsmenn, um 12.000 manns að meðaltali eða um fjórðungur.

Vinnutími
Á fyrsta ársfjórðungi 2019 voru að jafnaði 183.100 manns á aldrinum 16-74 ára við vinnu í hverri viku ársfjórðungsins og var meðalheildarfjöldi vinnustunda þeirra 38,8 klukkustundir. Þeir sem voru í fullu starfi unnu þó ívið meira eða að meðaltali um 44 stundir í viðmiðunarvikunni, en heildarfjöldi vinnustunda í hlutastarfi var að meðaltali um 22,6 klukkustundir.

Um gögnin
Rétt er að taka fram að ekki er þess að vænta að áhrif áfalla í ferðaþjónustu, hópuppsagna og verkfalla í lok ársfjórðungins komi fram í þessum tölum. Gagnasöfnun vinnumarkaðsrannsóknar lauk 31. mars, örfáum dögum eftir fall WOW air, auk þess sem viðmiðunardagur lausra starfa var 15. febrúar. Þessir atburðir hafa því ekki áhrif á þær tölur sem hér eru birtar.