Á Starfatorgi er auglýst eftir varðstjóra við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra en um tímabundna ráðningu er að ræða. Staðan er með starfsstöð á Blönduósi og er gert ráð fyrir að lögreglustjóri setji í stöðuna frá og með 1. september nk. segir á Feyki.is.
Leitað er að einstaklingi sem lokið hefur prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómanámi í lögreglufræðum sem jafngildir a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum, þ.m.t. starfsnámi á vegum lögreglunnar. Þá þarf viðkomandi að hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti tvö ár eftir að hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómaprófi í lögreglufræðum, hafa starfað í lögreglu á farsælan hátt og ekki sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta.
Í ljósi ríkjandi kynjahlutfalls innan lögreglu og jafnréttisáætlunar lögreglunnar eru konur sérstaklega hvattar til að sækja um.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra er ríkisstofnun sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið og segir í auglýsingunni að stofnunin sé eitt níu lögregluumdæma landsins sem ákveðin eru í lögreglulögum nr. 90/1996 og reglugerð um umdæmi lögreglustjóra nr. 1150/2014.
„Hjá embættinu starfa rúmlega 20 starfsmenn, flestir lögreglumenn. Hjá embættinu er lögð áhersla á opin og jákvæð samskipti, gagnsæi, frumkvæði, vönduð vinnubrögð, framúrskarandi þjónustu, vilja til samvinnu og samstarfs og starfsþróun. Þá er unnið að stefnumótun til fimm ára fyrir embættið með áherslu á setningu gilda og markmiða í starfsemi þess. Gert er ráð fyrir að áætlun þess efnis liggi fyrir á hausti komanda.
Í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra eru fimm sveitarfélög. Aðalstöð lögreglustjóra er á Sauðárkróki. Einnig eru lögreglustöðvar á Blönduósi og Hvammstanga. Hjá embættinu eru þrjú meginsvið, þ.e. löggæslusvið, rannsóknarsvið og ákærusvið. Umrætt starf er á löggæslusviði.
Umsóknarfrestur er til og með 16. ágúst nk.
Nánar HÉR