Heilbrigðisráðherra hefur ráðstafað 300 milljónum króna af fjárlögum ársins til að efla heimahjúkrun um allt land. Jafnframt hefur verið bætt 1,4 milljörðum króna inn í fjármögnunarlíkan heilsugæslu til að styrkja enn frekar hlutverk heilsugæslu á landsvísu sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu.

Heimahjúkrun styður fólk til sjálfstæðrar búsetu

Aukið fjármagn til heimahjúkrunar er mikilvægur liður í því að efla þjónustu heilsugæslunnar á landsvísu. Með hækkandi aldri þjóðarinnar má gera ráð fyrir að fjölgi í hópi þeirra sem glíma við aldurstengda sjúkdóma af einhverju tagi. Mikilvægt er að þjónusta heimahjúkrunar taki mið af því markmiði að fólk sé stutt til sjálfsbjargar og sjálfstæðrar búsetu heima sem lengst og að þjónustan sé veitt á réttum tíma og á réttu þjónustustigi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstök áhersla lögð á þjónustu við eldra fólk og það er jafnframt í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Ef vel er staðið að heimahjúkrun og annarri heilbrigðisþjónustu heim, dregur hún úr þörf fyrir dvöl á stofnun, s.s. á hjúkrunarheimilum og gerir fólki kleift að búa lengur heima. Með hliðsjón af þessari áherslu er auknu fjármagni til heimahjúkrunar; 300 milljónum króna, skipt milli Heimaþjónustu Reykjavíkur og heilbrigðisstofnana um allt land í samræmi við fjölda íbúa 75 ára og eldri á viðkomandi þjónustusvæði.

Hlutverk heilsugæslu eflt með 1,4 milljarða kr. viðbótarframlagi

Aukið fjármagn til heilsugæslu í gegnum fjármögnunarlíkan þessarar þjónustu er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Eins og þar kemur fram er áhersla lögð á að styrkja hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað notenda í heilbrigðiskerfinu með aukinni og bættri þjónustu og þverfaglegri teymisvinnu þar sem unnið er að stöðugum umbótum. 

Fjármögnunarlíkan heilsugæslu var fyrst innleitt hér á landi fyrir heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu árið 2017 og á landsbyggðinni árið 2021. Markmið líkansins er að gæta jafnræðis við úthlutun fjár til þjónustunnar óháð rekstrarformi og auka gæði og skilvirkni með áherslu á að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu. Áhersla er lögð á að greiðslur taki mið af þjónustuþörf notenda. Með auknu framlagi upp á 1,4 miljarða kr. inn í fjármögnunarlíkön heilsugæslu nemur  heildarframlagið nú tæpum 24 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Stöðugt er unnið að því að endurskoða og bæta fjármögnunarlíkanið þannig að það þjóni sem best markmiðum sínum og þörfum notenda og er það uppfært reglulega. Helstu breytingar á fjármögnunarlíkaninu sem tóku gildi um síðustu áramót eru þær að vægi félagsþarfavísitölu hefur verið aukið og greiðslufyrirkomulagi vegna hennar breytt. Einnig hafa verið gerðar breytingar á greiðslufyrirkomulagi vegna túlkaþjónustu, innleiddar greiðslur fyrir stofnun miðlægs lyfjakorts og gerðar breytingar á gæðaviðmiðum kerfisins.

Virðisaukaskattsálag og aukin fjárveiting vegna vaktaálags

Breytingar á fjármögnunarlíkaninu eru að mestu þær sömu fyrir heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Ákveðin atriði skilja þó á milli vegna ólíkra aðstæðna. Á höfuðborgarsvæðinu er það nýmæli að bætt hefur verið við sérstöku virðisaukaskattsálagi fyrir einkareknar heilsugæslustöðvar sem fá ekki endurgreiddan virðisaukaskatt á sama hátt og opinberar stöðvar. Í fjármögnunarlíkani heilsugæslu á landsbyggðinni hefur aftur á móti fjárveiting vegna vaktaálags verið aukin umtalsvert. 


Mynd: aðsend