Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Sjúkrahúsinu á Akureyri auknar fjárheimildir, alls 307 milljónir króna, til brýnna framkvæmda sem mikilvægt er að ljúka sem fyrst. Annars vegar er um að ræða aðstöðu fyrir nýtt sjúkrahúsapótek sem uppfyllir nútímakröfur um meðhöndlun og blöndun lyfja. Hins vegar lokafrágang og innréttingu á tæplega 600 fermetra húsnæði sem m.a. nýtist fyrir kennsluaðstöðu og skrifstofur.

Bæði þessi verkefni munu styrkja stöðu sjúkrahússins, efla þjónustu þess og auka öryggi sjúklinga og starfsfólks“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Þetta sé mikilvægt, enda þjónustusvæði Sjúkrahússins á Akureyri víðfeðmt og hlutverk þess stórt. Það veiti annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu og sé kennslusjúkrahús og jafnframt varasjúkrahús Landspítala. 

Brýn þörf fyrir nýtt sjúkrahússapótek

Núverandi aðstæður sjúkrahússapóteksins eru ófullnægjandi og samræmast ekki gildandi stöðlum um slíka starfsemi. Í apótekinu fer m.a. fram blöndun frumubreytandi lyfja við krabbameinum sem gerir ríkar kröfur um aðstæður og skilyrði til að tryggja öryggi starfsfólks og sjúklinga. Síðustu misseri hefur verið unnið að hönnun og útfærslu á nýju sjúkrahússapóteki í samvinnu við erlenda sérfræðinga. Stefnt er að því að ljúka verkinu að mestu á þessu ári með 120 milljóna króna viðbótarfjármagni sem nú hefur verið tryggt til verksins. 

Mikil tækifæri í tæplega 600 fermetra viðbótarhúsnæði

Fyrir fáum árum var reist þakbygging ofan á tengigangi B-álmu sjúkrahússins. Byggingin er rúmir 580 fermetrar en töluvert verk er óunnið svo unnt sé að taka hana í notkun. Mikil tækifæri felast í auknu húsnæði sem gerir t.a.m. kleift að skapa aukið rými fyrir dag- og göngudeildarþjónustu sjúkrahússins sem býr við þröngan kost. Kennsluhlutverk sjúkrahússins hefur aukist umtalsvert undanfarin ár og þörf fyrir aukna aðstöðu að sama skapi. Horft er til þess að nýta nýtt húsnæði undir skrifstofu- og kennsluaðstöðu þar sem rými verður fyrir almenna fræðslu, hermikennslu og aðstaða fyrir Sjúkraflutningaskólann. Aukið framlag vegna þessa verkefnis nemur 187 milljónum króna sem er áætlaður kostnaður við að ljúka framkvæmdum og innrétta húsnæðið.