Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hefur verið aukið. Það þýðir að allir fuglar í haldi þurfa tímabundið að vera hafðir í yfirbyggðum gerðum þar sem villtir fuglar komast ekki inn eða í fuglaheldum húsum. Sóttvarnir skulu viðhafðar til að hindra smit frá villtum fuglum í alifugla. Matvælastofnun hvetur alla sem halda alifugla til að skrá fuglahald sitt í gegnum þjónustugáttina á vef stofnunarinnar.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Var það gert á grundvelli tillögu Matvælastofnunar til ráðuneytisins vegna mikillar útbreiðslu fuglaflensu í Evrópu í vetur. Alvarleg afbrigði fuglaflensuveiru hafa m.a. greinst á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.
Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur eru á að alvarleg afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum sem nú eru farnir að streyma til landsins. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant.
Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar; stór hluti fuglanna getur drepist, fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á og leggja þarf ýmis konar takmarkanir á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú. Óvíst er hvenær óhætt getur talist að aflétta þessum auknu sóttvarnaráðstöfunum en starfshópurinn endurmetur smithættuna reglulega.
Ekki er talin vera mikil smithætta fyrir fólk af þessum afbrigðum fuglaflensuveirunnar og ekki stafar smithætta af neyslu afurða alifugla.
Eftirfarandi reglur um smitvarnir hafa verið birtar:
- Fuglahús og umhverfi þeirra
a. Fuglarnir skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.
b. Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla.
c. Hús og gerði skulu fuglaheld.
d. Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.
e. Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður á fuglahúsum, nema þar sem um er að ræða útblástur vélrænnar loftræstingar.
f. Setja skal fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum. - Umgengni og umhirða
a. Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að fuglahúsum.
b. Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fugl-anna. - Fóður og drykkjarvatn
a. Fóður og drykkjarvatn fuglanna má ekki vera aðgengilegt villtum fuglum.
b. Drykkjarvatnsból skulu vel frágengin þannig að ekki berist í þau yfirborðsvatn og fugla-drit. - Flutningar
a. Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað.
b. Ekki skal flytja fugla milli staða nema vitað sé að heilsufar fugla á báðum stöðum sé gott.
c. Skrá skal alla flutninga á fuglum, hvenær flutningarnir fóru fram og hvert og hvaðan þeir voru fluttir. Skráin skal vera aðgengileg Matvælastofnun ef hún óskar eftir henni. - Úrgangur
a. Farga skal öllum úrgangi úr fuglahúsum þannig að ekki stafi smithætta af honum fyrir alifugla og aðra fugla í haldi.
Fyrir eigendur alifuglabúa með 250 fugla eða fleiri gilda að auki ákvæði í 20. og 21. grein um smitvarnir í reglugerð nr. 135/2015 um velferð alifugla.
Í auglýsingunni kemur einnig fram að eldi sem er vottað samkvæmt reglum um lífræna framleiðslu skal ekki missa vottun vegna þeirra krafna sem settar eru fram í auglýsingu þessari.
Huga skal að velferð alifugla í frístundahaldi meðan þeir eru hafðir í meira aðhaldi en þeir eru vanir, sjá leiðbeiningar Matvælastofnunar þess efnis.
Allir sem halda alifugla (hænsnfugla, kalkúna, endur, gæsir, kornhænur o.s.frv.) eru hvattir til að skrá fuglana. Tilgangur skráningarinnar er m.a. að Matvælastofnun geti haft samband við alifuglaeigendur á tilteknu svæði ef upp kemur fuglaflensa í villtum fuglum eða í alifuglum á svæðinu. Ekki er þörf á skráningu á alifuglahaldi sem nú þegar er með leyfi stofnunarinnar fyrir frumframleiðslu matvæla.
Skráningar fara fram í gegnum þjónustugátt MAST á vef stofnunarinnar í umsókn nr. 2.35: Skráning á alifuglum. Opið er fyrir skráningar. Það er hagur allra fuglaeigenda að allir skrái sitt alifuglahald vegna aðsteðjandi hættu.
Áfram er mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningu um dauða fugla, þegar orsök dauða er ekki augljós (svo sem þegar fuglarnir hafa flogið á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla). Þau afbrigði fuglaflensuveiru sem nú herja á fugla eru ekki bráðsmitandi fyrir fólk en þó er ráðlegt að gæta almennra smitvarna, snerta ekki dauða fugla með berum höndum og tilkynna tafarlaust um fundinn.
Ítarefni
- Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglaflensu
- Skráning fuglahalds vegna fuglaflensuhættu – frétt Matvælastofnunar 11.03.21
- Hertar sóttvarnir væntanlegar vegna fuglaflensu – frétt Matvælastofnunar 27.01.21