Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur með breytingu á reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands aukið rétt þeirra til endurgreiðslu ferðakostnaðar. Hingað til hafa sjúkratryggingar tekið þátt í kostnaði við tvær ferðir á ári en með breytingunni fjölgar þeim í þrjár. Þetta á við um nauðsynlegar ferðir þar sem eru 20 km. eða lengra milli staða og þjónustan er ekki fyrir hendi í heimabyggð.
„Með þessari breytingu er stutt við það mikilvæga markmið að auka og jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Þá voru einnig feld brott skilyrði um að læknir í heimabyggð sjúkratryggðs þyrfti að staðfesta að sú heilbrigðisþjónusta sem sjúkratryggður sækist eftir sé ekki í boði í heimabyggð viðkomandi. Eftir breytinguna þarf einungis staðfesting læknis, eða ljósmóður ef það á við, að liggja fyrir um að sjúkdómsmeðferðin sem um ræðir sé ekki veitt í heimabyggð viðkomandi.
Þátttaka sjúkratryggðra í ferðakostnaði er bundin við að sjúkratryggður þurfi að leita sér óhjákvæmilegrar sjúkdómsmeðferðar utan heimabyggðar á opinberum sjúkrastofnunum eða hjá öðrum aðilum heilbrigðiskerfisins þar sem sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra. Undir þetta fellur einnig kostnaður við ferðir vegna tannlækninga og tannréttinga sem eru með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.
Reglugerðin hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar og öðlast gildi 1. janúar.