Hert samkomubann og reglur um fjarlægð milli fólks sem nú eru í gildi gætu haft mikil neikvæð áhrif á mikilvæg fundahöld, eins og fundi bæjarstjórna.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti einróma tillögu Ingibjargar Guðlaugar Jónsdóttur, forseta bæjarstjórnar, að tímabundinni heimild til breytinga á fyrirkomulagi funda bæjarstjórnar og fastanefnda Fjallabyggðar meðan neyðarstig almannavarna er í gildi.

Bæjarstjórn samþykkir, með 7 samhljóða atkvæðum, til að tryggja starfhæfi sitt og til að auðvelda ákvarðanatöku við stjórn Fjallabyggðar, að nota fjarfundarbúnað á fundum bæjarstjórnar og fastanefnda bæjarfélagsins og engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefndum sveitarfélagsins í fjarfundarbúnaði. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að ritun fundargerða fari fram með öðrum hætti en mælt er fyrir um í leiðbeiningum innanríkisráðuneytisins, um ritun fundargerða, nr. 22/2013. Fundargerð skal annað hvort deilt með öllum fundarmönnum á skjá í lok fundar, lesin yfir og samþykkt, send staðfest með tölvupósti og samþykkt með svari eða undirrituð rafrænt.

Heimild: Fundargerð Bæjarstjórnar Fjallabyggðar 23. mars.