Það ríkir mikil sorg hjá aðstandendum Andrésar andar leikanna að hafa aftur í ár þurft að aflýsa leikunum, nú á allra síðustu stundu.

Undanfarna daga og allt fram á síðustu stundu hefur framkvæmdanefnd leikanna leitað leiða í samráði við sóttvarnaryfirvöld, heilbrigðisráðuneytið, Almannavarnir, bæjaryfirvöld, ÍSÍ, SKÍ og SKA til að hægt verði að halda leikunum til streitu í samræmi við gildandi reglur.

Á fundi þessara aðila í hádeginu í dag þriðjudag, voru allir sáttir við það sóttvarnaplan sem leggja átti fyrir. Það var svo núna seinnipartinn að forsendur breyttust þar sem Almannavarnir og sóttvarnarlæknir lögðust gegn því að leikarnir yrðu haldnir þar sem það felur í sér of mikla hættu á smiti m.v. það ástand sem ríkir í landinu.

Hjá undirbúningsaðilum stóð aldrei annað til en að halda leikana með allra ýtrustu sóttvarnarráðstafanir að leiðarljósi. Það eina sem vakti fyrir Andrési var að leyfa börnunum að koma saman innan þeirra takmarkana sem gilda og eiga þannig frábæra daga í Hlíðarfjalli.

Skoða á vef: Andrésar Andarleikanna

Mynd/Andrésar Andar leikarnir