Baggalúti er það bæði ljúft og skylt að svara kalli þjóðarinnar – og raunar heimsbyggðarinnar allrar – eftir auknu framboði af kántrítónlist. Hljómsveitin hefur um árabil sérhæft sig í hágæða kántrítónlist við allra hæfi, þar sem léttleikandi taktur, ljufsárir textar, banjóspil og fetilgítarleikur eru allsráðandi.

Nýtt lag Baggalúts kallast einfaldlega „Allir eru að fara í kántrí“ og fjallar um þessa langþráðu bið eftir góðu, ómenguðu kántríi, lausu við stæla og óþarfa krúsídúllur. Lagið er komið í spilun á FM Trölla.

Ásamt nokkrum íslenskum þjóðhetjum í hljóðfæraleik og söng eru góðir gestir í laginu, banjóleikarinn Matt Menefee og fetilgítarleikarinn Ryan Stigmon. Báðir eru þeir hoknir af reynslu frá Nashvilleborg í Tennessee og léku nýverið með Baggalúti og Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvennum tónleikum í Eldborg.

Um leið og þjóðinni er óskað hjartanlega til hamingju með lagið varar Baggalútur við svokölluðu kántrílíki, sem nokkuð hefur borið á undanfarið. Þar hoppa ýmsir velmeinandi lukkuriddarar á kántrílestina með bægslagangi og látum — án þess að hafa til að bera þann skilning og þá næmni sem þetta viðkvæma listform krefst af iðkendum sínum. 

Höfundur lags og texta:: Bragi Valdimar Skúlason

Aðsent