Jóhannes Bjarki Sigurðsson, tónlistarmaður búsettur á Akureyri en upprunalega frá Hjalteyri í Eyjafirði var að senda frá sér nýtt lag.
Lagið heitir Bergmál Náttúrunnar og Jóhannes Bjarki lýsir hér tilurð þess:
Í mars 2023 kom eiginkona mín, hún Guðrún María Jónsdóttir, með ljóð sem hún hafði samið og spurði mig hvort ég gæti prófað að semja lag út frá ljóðinu. Mér fannst tilvalið að taka þeirri áskorun þar sem ég var forvitinn að vita hvort ég gæti samið lag á þann hátt. Enda hafði ég alltaf samið lög með mínum eigin textum og oftast á ensku. Stuttu síðar var Bergmál Náttúrunnar tilbúið. Verða ekki bestu lögin til þannig? Á stuttum tíma þar sem flæðið stöðvast ekki.
Við Guðrún María töluðum í framhaldinu við Hallgrím Jónas Ómarsson varðandi upptökur, mix og masteringu auk þess að spila á gítara og búa til slagverk. Við fengum svo Stefán Gunnarsson til að spila á bassa, Valgarð Óla Ómarsson til að búa til slagverks hljóðin, Guðrúnu Arngrímsdóttur til að syngja bakraddir ásamt mér, Sigurð Sigurðsson til að spila á munnhörpu og svo fengum við Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur til að spila á selló. Útkoman er að mínu mati virkilega flott, undirspil og útfærsla lags í takt við það sem við höfðum séð fyrir okkur. Svona náttúrulegur folky hljóðheimur.
Texti Guðrúnar Maríu fjallar einfaldlega um það hversu heilandi það er að vera úti í fallegri náttúru Íslands, njóta kyrrðarinnar, hlusta á hljóðin frá fuglunum og tæma hugann af veraldlegum áhyggjum og hugsa um lífið og ástina í frelsi náttúrunnar.
Lag: Jóhannes Bjarki Sigurðsson.
Texti: Guðrún María Jónsdóttir.
Útsetning: Jóhannes Bjarki Sigurðsson, Guðrún María Jónsdóttir og Hallgrímur Jónas Ómarsson.
Upptökur, mix og mastering: Hallgrímur Jónas Ómarsson.
Söngur og bakraddir: Jóhannes Bjarki Sigurðsson.
Bakraddir: Guðrún Arngrímsdóttir.
Gítarar: Hallgrímur Jónas Ómarsson.
Bassi: Stefán Gunnarsson.
Slagverk: Valgarður Óli Ómarsson.
Munnharpa: Sigurður Sigurðsson.
Selló: Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir.