Bernskuheimilið mitt eftir skáldið Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum er nú komið út á bók.
Verkið birtist fyrst í Eimreiðinni árið 1906 og er talið fyrsta sjálfsævisögulega frásögn íslenkrar konu sem birtist á prenti.
Frásögnin vakti mikla athygli á sínum tíma og þótti Ólöf mjög bersögli um hluti sem sértaklega konur áttu að þegja um. Ólöf fæddist og ólst upp á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu upp úr miðri 19. öld, lærði svo til ljósmóður og gerðist skáld, en bjó svo sérstæðu lífi ásamt eiginmanni á Hlöðum í Hörgárdal.
Þórgunnur Oddsdóttir ritaði eftirmála um Ólöfu, líf hennar og verk, og aftast í bókinni er líka listi yfir ítarefni fyrir þau sem vilja vita meira um þessa óvenjulegu skáldkonu og manneskju. Kristín Þóra Kjartansdóttir ritstýrði og útgefandi er Flóra menningarhús í Sigurhæðum á Akureyri.
Rakel Hinriksdóttir gerði kápu og setti upp fyrir prent, en prentun var í umsjón Prentsmiðjunnar á Akureyri. Útgáfan var styrkt af Menningar- og minningarsjóði kvenna sem er í umsjón Kvenréttindafélag Íslands, í tilefni af því að 50 ár eru frá Kvennafrídeginum. En það vel við hæfi því Ólöf ruddi sér sína eigin sérstæðu lífsleið og var líka mikil kvenréttindakona.
Til að byrja með er að nálgast eintak af bókinni inn á www.pastel.is og í Sigurhæðum á Akureyri.

Mynd/aðsend