Í kvöld, föstudaginn 31. ágúst, hefst blúshátíðin Milli fjalls og fjöru á Patreksfirði.

Það er félagið Blús milli fjalls og fjöru sem stendur fyrir hátíðinni, nú í sjöunda sinn.

Forsvarsmenn hátíðarinnar eru: Páll Hauksson, Guðni Freyr Ingvason og Gestur Rafnsson.

Fyrstu skiptin var hátíðin haldin í “Sjóræningjahúsinu” sem var gömul vélsmiðja á Patreksfirði “og var einn blúsaðasti staður í heimi, svo mér datt í hug að prufa þetta einu sinni” segir Páll, sem hafði lengi langað til að fá uppáhalds blúsarana sína hingað vestur til að spila blús í kósý stemmingu í þessu litla húsi.

Það var dágóð mæting þá svo þeir ákváðu að halda þessu áfram. Nú er blúshátíðin orðin árlegur viðburður og hefur alltaf verið fyrstu helgina í september. Hátíðin hefur stækkað jafnt og þétt þannig að nú er hún haldin í sjöunda sinn, og nú í stóru húsi, – Félagsheimili Patreksfjarðar, þar sem allt er til staðar.

Forsvarsmenn blúshátíðarinnar vilja koma á framfæri sérstöku þakklæti til fyrirtækja og fólksins á Patreksfirði, því án þeirrar aðstoðar væri þetta alls ekki hægt. “Það eru allir að koma með okkur inn í þetta, búðirnar eru með blús-tilboð, gististaðirnir hjálpa til við að koma tónlistarfólkinu fyrir, hótelið er með blús-tilboð á kvöldmat. Það leggjast allir á eitt til að gera þetta sem flottast” segir Páll.

Það er stórhljómsveit Sniglabandsins sem byrjar hátíðina í kvöld. Húsið verður opnað kl. 21 og tónleikarnir byrja kl. 22

Annað kvöld eru það hljómsveitirnar Kentár og Mugison blúsband sem spila.

 

Sjá viðburð: Blús milli fjalls og fjöru

 

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Forsíðumyndynd: Kristín Sigurjónsdóttir