Boeuf bourguignon – uppskrift fyrir 6
- 1 kg nautahnakki
- 200 g beikon
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- 4 dl rauðvín
- 2 msk tómatpúrra
- 2 nautateningar
- vatn (ca 6 dl, eða eins og þarf til að rétt fljóta yfir kjötið)
- 10 sveppir
- 5 perlulaukar
- ólífuolía og smjör
- salt og pipar
- 2 lárviðarlauf
- 1/2 tsk timjan
- steinselja
Skerið kjötið í passlega stóra grýtubita og skerið beikonið í strimla. Hakkið laukinn. Bræðið smjör og olíu á pönnu við háan hita og steikið nautakjötið og laukinn, gjarnan í nokkrum skömmtum svo að kjötið brúnist vel. Saltið og piprið kjötið vel. Færið yfir í steypujárnspott og bætið vatni, rauðvíni, nautakraftsteningum, tómatpúrru og pressuðum hvítlauk í pottinn.
Látið pottinn yfir miðlungsháan hita (sirka stilling 3-4 af 9). Steikið núna beikonið á pönnunni sem kjötið var á og bætið því svo í pottinn, sem ætti núna að vera byrjaður að sjóða vægt. Bætið timjan og lárviðarlaufi í pottinn og leyfið nú að sjóða í amk 1-2 klst en því lengur því betra (gott að láta réttinn sjóða við mjög vægan hita allan daginn, örugglega hátt í 6 klst). Rétt áður en rétturinn er borinn fram eru sveppirnir skornir í fernt ásamt perlulauknum, steikt í vel af smjöri og síðan bætt í pottinn og látið liggja þar í smá stund.
Áður en rétturinn er borinn á borð er hakkaðri ferskri steinselju stráð yfir.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit