Föstudaginn 27. janúar gaf hljómsveitin Brek út nýtt lag á öllum helstu streymisveitum.

Lagið ber titilinn “Hálftómt glas” og er það fyrsta lagið sem hljómsveitin sendir frá sér af tilvonandi nýrri plötu sveitarinnar. Lagið er samið af öllum meðlimum hljómsveitarinnar en forsöngvarinn Jóhann Ingi Benediktsson samdi textann.  

Hljómsveitin Brek leikur aðallega frumsamda, alþýðu skotna, tónlist með áhrifum úr ýmsum áttum, en meðlimir sveitarinnar leggja mikla áherslu á að skapa áhugaverða en notalega stemningu í hljóðfæraleik sínum. Auk þess er lögð áhersla á fjölskrúðuga notkun íslenskrar tungu í textagerð.

Hljómsveitina skipa Harpa Þorvaldsdóttir söngkona og píanóleikari, Jóhann Ingi Benediktsson gítarleikari og söngvari, Guðmundur Atli Pétursson mandólínleikari og Sigmar Þór Matthíasson kontrabassaleikari.  

Brek hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2022 fyrir Plötu ársins í flokki Þjóðlaga- og heimstónlistar fyrir sína fyrstu plötu.

Á þessu ári er margt framundan hjá sveitinni en þar ber fyrst að nefna ferð til Bandaríkjanna til að spila á “showcase” hátíðinni Folk Alliance International sem fer fram í Kansas City 1.-5. febrúar næstkomandi.

Fleiri tónleikaferðir, bæði erlendis og hérlendis, eru svo fyrirhugaðar síðar á árinu.

Sjá nánar á vefsíðunni: www.brek.is