Dagana 26.-30.júlí mun hljómsveitin Brek vera á ferðinni og halda tónleika á vestur- og norðurlandi. Tónleikar verða í Borgarnesi, Patreksfirði, Akureyri, Blönduósi og Hvammstanga.

Í Borgarnesi kemur hljómsveitin fram á útitónleikum í fallegu umhverfi í Englendingavík áður en ferðinni er heitið vestur á firði þar sem Brek spilar í fyrsta sinn á hinum frábæra stað FLAK á Patreksfirði. Næsti viðkomustaður verður í Lystigarðinum á Akureyri þar sem hljómsveitin spilar á hinum margrómaða stað LYST. Tónleikarnir á Blönduósi eru í framhaldi af opnunarhátíð Krúttsins, nýuppgerðu tónleikarými Hótels Blönduóss og tónleikarnir í Sjávarborg á Hvammstanga slá lokahnykkinn á bæjarhátíðina Eldur í Húnaþingi.

26. júlí  – Englendingavík í Borgarnesi

27. júlí  – FLAK á Patreksfirði

28. júlí – LYST á Akureyri

29. júlí – Krúttið á Hótel Blönduósi

30. júlí – Sjávarborg á Hvammstanga

Hljómsveitin Brek leikur aðallega frumsamda, alþýðu skotna, tónlist með áhrifum úr ýmsum áttum, en meðlimir sveitarinnar leggja mikla áherslu á að skapa áhugaverða en notalega stemningu í hljóðfæraleik sínum. Auk þess er lögð áhersla á fjölskrúðuga notkun íslenskrar tungu í textagerð.

Hljómsveitina skipa:

Harpa Þorvaldsdóttir söngkona og píanóleikari,

Jóhann Ingi Benediktsson gítarleikari og söngvari, 

Guðmundur Atli Pétursson mandólínleikari 

Sigmar Þór Matthíasson kontrabassaleikari.

Sumarið 2021 gaf sveitin út sína fyrstu plötu sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2022 sem Plata ársins í flokki Þjóðlagatónlistar.

Brek hefur undanfarið spilað á tónleikum víða hérlendis en auk þess hefur sveitin nýverið leikið á erlendum tónlistarhátíðum – Folk Alliance International í Kansas City í Bandaríkjunum í febrúar 2023 og Nordic Folk Alliance í Roskilde í Danmörku í apríl 2023.  Auk þess hyggur sveitin á frekara tónleikahald erlendis síðar á árinu. 

Brek kom einnig fram í þættinum Stúdíó RÚV sem sýndir hafa verið í Ríkissjónvarpinu undanfarið.

FB viðburðir

https://fb.me/e/HthCjpjeN

https://fb.me/e/7w2PIT8QL

https://fb.me/e/7hF8MDkME

https://fb.me/e/2HqP5Z4uC

https://fb.me/e/g8iVb947Y