Matvælastofnun heldur fræðslufund um breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti til Íslands fimmtudaginn 28. nóvember kl. 13:00 – 15:00 í húsnæði stofnunarinnar að Dalshrauni 1b í Hafnarfirði.

Markmið fundar er að upplýsa um þær reglur sem brátt taka gildi um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands og þær kröfur sem innflytjendur og dreifingaraðilar þurfa að uppfylla. Farið verður yfir viðbótartryggingar vegna salmonellu og sérreglur um kampýlóbakter.

Dagskrá:

  • Breyttar reglur um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands
  • Staðan á Íslandi og í Evrópu
  • Kampýlóbakter í alifuglakjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
  • Salmonella í eggjum og kjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
  • Eftirlit og viðurlög

Fundurinn er ætlaður matvælafyrirtækjum, einkum þeim sem flytja inn og dreifa hráum dýraafurðum, og öðrum áhugasömum.

Tilefni fundar er afnám frystikröfu og leyfisveitingar á innfluttum hráum dýraafurðum í kjölfar EFTA dóms.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur unnið að sérreglum um kampýlóbakter í alifuglakjöti og öflun viðbótartrygginga vegna salmonellu í samstarfi við Matvælastofnun. Í upphafi ársins samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar vegna salmonellu í innfluttu kjúklinga- og kalkúnakjöti og eggjum. Viðbótartrygging vegna salmonellu í innfluttu svína- og nautakjöti var samþykkt á fundi sameiginlegu EES nefndarinnar 25. október sl.

Fræðslufundurinn er opinn öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Honum verður streymt í gegnum Neytendavakt Matvælastofnunar á Facebook og upptaka gerð aðgengileg þar og á vef Matvælastofnunar að fundi loknum.