Kvennafrídagurinn er í dag, 24. október.

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 miðvikudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Kaffi Klöru, kl. 15:15 undir kjörorðinu:
Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!
Síðastliðið ár hafa frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum undirstrikað að brýnt sé að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Nú er nóg komið, konur eiga að vera óhultar heima og óhultar í vinnu!

Verið velkomnar á Kaffi Klöru í kvennakaffi og létt spjall 😉
http://kvennafri.is/kvennafri-2018-is/

Kaffi Klara Ólafsfirði – mynd af facebook síðu KK

 

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1975 skyldi sérstaklega helgað málefnum kvenna.

Íslensk kvennasamtök tóku höndum saman í upphafi árs 1975 til að skipuleggja aðgerðir ársins og héldu m.a. fjölsótta ráðstefnu í júní þar sem staða og kjör kvenna voru rædd og fjölmargar ályktanir og tillögur samþykktar. Meðal þeirra var tillaga frá Rauðsokkahreyfingunni þess efnis að konur tækju sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna, þann 24. október.

Kvenfélög og kvennasamtök mynduðu sérstaka nefnd í september 1975 til að undirbúa kvennafrí. Hún undirbjó daginn mjög vel um allt land og stóð m.a. fyrir útifundi á Lækjartorgi. Talið er að um 25.000 konur hafi safnast þar saman. Líklega er þetta einn stærsti útifundur Íslandssögunnar. Fjölmargir fundir voru haldnir um allt land sem voru einnig fjölsóttir. Langflestar konur lögðu niður störf þennan dag og atvinnulífið lamaðist.

Framtak íslenskra kvenna vakti athygli erlendra blaða- og fréttamanna og víða birtust myndir af útifundum og viðtöl við íslenskar konur í erlendum fjölmiðlum. Aðgerð af þessu tagi hafði verið undirbúin í öðrum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, en sú íslenska bar af þeim öllum. Má það ekki síst þakka skipulagi og undirbúningi Kvennaársnefndar.

Konur vinna ókeypis eftir kl. 14:55 á Íslandi!
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna voru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.

Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55.