Kl. 00:55 varð jarðskjálfti að stærð 4,3 um 20 km NNV af Siglufirði. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi en Veðurstofunni hafa borist yfir 100 tilkynningar vegna hans.

Skjálftinn fannst allt frá Hvammstanga í vestri að Húsavík í austri. Búast má við því að eftirskjálftar muni koma í kjölfarið. Að svo stöddu hafa nokkrir eftirskjálftar mælst, sá stærsti 2,7 að stærð. Upptök skjálftanna virðast vera á um 8-10 km dýpi.

Skjálftinn varð vegna jarðskorpuhreyfinga á Tjörnesbrotabeltinu. Staðsetning skjálftans er þar sem suðurendi Eyjafjarðaráls og vesturhluti Húsavíkur-Flateyjarmisgengisins mætast.

Öflug jarðskjálftahrina varð á svipuðum slóðum haustið 2012. Stærstu skjálftarnir í þeirri hrinu voru 5,6 og 5,4 að stærð. Árið 2018 urðu þrír skjálftar stærri en 3,0 að stærð á svæðinu, en skjálftinn í nótt er sá fyrsti síðan 2012 sem er stærri en 4,0 að stærð. Því má segja að skjálftar af þessari stærðargráðu eru þekktir á þessu svæði.

Nánar má fylgjast með skjálftunum á vefnum okkar https://www.vedur.is/#syn=skjalftar

Við bendum einnig á upplýsingar um varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á vef Almannavarna https://www.almannavarnir.is/…/ja…/varnir-gegn-jardskjalfta/

 

Heimild: Veðurstofa Íslands