Að venju var Menntaskólinn á Tröllaskaga opinn börnum á öskudaginn en ekki var hljóðkerfi að þessu sinni vegna covid. Nokkrir barnahópar komu samt og sungu um gamla Nóa, sem orðinn er að skíðamanni í Fjallabyggð og tóku fleiri hefðbundna slagara.

Nemendafélagið Trölli stóð fyrir búningakeppni og skörtuðu nemendur og starfmenn skrautlegum búningum. Fyrstu verðlaun fyrir búninga nemenda hlaut Jana Sól Ísleifsdóttir í gervi sjóræningja, önnur verðlaun hlaut Amalía Þórarinsdóttir í búnini Amy Winehouse og þriðju verðlaun fékk Ómar Geir Lísuson í gervi einstæðs föður. Ein verðlaun voru veitt í flokki starfsmanna og hlaut Sæbjörg Ágústsdóttir í gervi Tóta trúðs þau.

Framan af morgni gengu nemendur um og horfðu gaumgæfilega upp í loftið og inn í horn og skonsur. Þeir voru að leita fjársjóða (nammipoka) sem forysta nemendafélagsins hafði falið á ýmsum stöðum. Verðlaun nemenda fyrir búninga voru einnig í sætara lagi enda gott að hafa eitthvert mótvægi við allan harðfiskinn sem Björg Traustadóttir treður upp á mann og annan á þessum degi í nafni heilsueflandi framhaldsskóla. Myndir

Forsíðumynd: Vinningshafar mynd BT

Skoða á vefsíðu MTR