Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum púttvelli við Hvanneyrarbraut á Siglufirði sem félag eldri borgara stendur fyrir.

Völlurinn verður til afnota fyrir eldri borgara og alla þá sem áhuga hafa á að stunda íþróttina.

Verktakinn Sölvi Sölvason sér um framkvæmdir og er vonast til að hægt verði að sá í völlinn í haust og spila á honum seinni hluta sumars 2020 eða í byrjun sumars 2021. Það fer allt eftir tíðarfari segir Ingvar Guðmundsson formaður eldri borgara á Siglufirði.

Félag eldri borgara fagnar því ákaflega að verkið skuli vera hafið eftir langan aðdraganda.

Fyrsta skóflustungan tekin við gerð púttvallar fyrir Félag eldri borgara á Siglufirði. Á mynd eru áhugamenn um pútt. Mynd/ Steingrímur Kristinsson

Félagið mun sjálft annast umsjón og hirðingu á svæðinu og  hyggst taka það í fóstur. þarna á að gróðursetja plöntur, setja niður bekki og byggja lítinn kofa fyrir búnað vallarins.

Það er ýmisleg á döfinni hjá Félagi eldri borgara á Siglufirði og hefur fjölgað í því að undanförnu, 145 manns eru í félaginu og um 85% af þeim eru mjög virkir í starfseminni.

Félaginu var úthlutað 2.340.000 árið 2017 úr Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar til gerðar vallarins og kemur sú upphæð til með að duga langleiðina fyrir framkvæmdum. Vonast er til að velunnarar félagsins og bæjaryfirvöld styðji við verkefnið. Sjá eldri frétt á Trölla.is: Púttvöllur í grendarkynningu

Við fyrirhugaðan púttvöll Hvanneyrabraut

 

Myndir: Steingrímur Kristinsson og Trölli.is