Dalvíkurbyggð gaf frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í gær, fimmtudaginn 18. nóvember.
Nú hafa aðstæður í Dalvíkurbyggð þróast með þeim hætti að full ástæða er til þess að íbúar svæðisins séu hvattir til einbeittrar samstöðu í baráttu við kórónuveiruna. Bæði Dalvíkurskóli og Tónlistarskólinn eru lokaðir og staðan sú að allir starfsmenn Dalvíkurskóla eru á leið í PCR-próf í Dalvíkurskóla í dag auk allra nemenda Dalvíkurskóla. Með PCR-prófinu verður líka hægt að staðfesta þau smit sem þegar hafa greinst í heimaprófum. Mælt er með að foreldrar bóki einkennasýnatöku fyrir börnin sín inn á heilsuveru, velja Akureyri sem sýnatökustað og haka í skv. ráðleggingu rakningateymis. Þá fáið þið sent strikamerki sem þið sýnið í sýnatökunni. Þetta auðveldar teyminu vinnuna og hraðar ferlinu.
Við munum reyna eftir fremsta megni að halda íbúum vel upplýstum í þessu verkefni sem okkur hefur verið falið.
Við viljum biðja foreldra nemenda í skólanum að vera vel vakandi fyrir upplýsingum sem kunna að berast frá skólastjórnendum og kennurum bæði í rafpósti og á facebook síðum árganganna. Nú er því nauðsynlegt að hvert og eitt okkar geri það sem hægt er til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar.
Nú er orðið ljóst að í það minnsta 4 starfsmenn skólans eru smitaðir af covid og nokkrir nemendur, alla vega 10 í 1. bekk og 2 í 6. bekk sem vitað er um. Það er því ljóst að við erum að glíma við hópsýkingu og biðlum við til allra að fara varlega. Eftirtaldir bekkir eru í sóttkví: 1., 3., 5., og 6. og allir frístundarnemendur. Þá eru nemendur í 7.-9. bekk beðnir um að fara í sóttkví ef þeir telja sig hafa verið í mikilli nálægð við kennarann. Best er ef allir verði sem minnst á ferðinni og í eins litlum samskiptum við aðra og hægt er.
Á dvalarheimilinu Dalbæ er lokað fyrir gesti og utanaðkomandi framyfir helgi í ljósi þess að smit hafa greinst í nærsamfélaginu
Meðfylgjandi er einnig texti sem barst frá Almannavörnum nú í morgunsárið:
Hvet alla þarna á svæðinu að halda sig til hlés á meðan verið er að ná utan um þetta, leggja enn meiri áherslu á smitvarnir og þar sem menn eru með hólfaskiptingar að árétta það við sitt starfsfólk svo að hólfaskiptingin virki ef til kemur smit innan einingar.
Þá þarf að tryggja að allt íþrótta og félagsstarf sé í fríi á meðan náð er utan um þetta.
Þá er gott að hafa í huga að börn og unglingar séu ekki að sækja æfingar út fyrir sitt svæði.
Svo nú reynir á! Allir kunna viðbrögðin, allir geta gert sitt og nú þurfum við öll að standa saman. Persónubundnar sóttvarnir verða að vera í lagi ef árangur á að nást. Reglulegur handþvottur, sprittun, grímunotkun þar sem hún á við og virðing fyrir nálægðarmörkum við annað fólk er lífsnauðsynleg í baráttunni við þennan vágest sem veiran er. Stöndum okkur öll sem eitt í að virða sóttvarnarreglur og tökum fullt tillit til þeirra tilmæla sem gefin eru út af sóttvarnarlækni. Gerum þetta saman, gerum þetta vel og sýnum samstöðu, okkar allra vegna.
Uppfærð staða á Covid smitum fyrir 620 og 621 verður sett inn um leið og þær upplýsingar berast.
Hér fyrir neðan má finna afar greinargóðar skýringar af covid.is varðandi smitgát, sóttkví og einangrun.
Sjá einnig sérstaklega tengilinn varðandi Börn í sóttkví.
Við viljum nú sem endra nær hvetja alla til að kynna sér vel allar nýjustu upplýsingar á covid.is
Ef einhverjar spurningar vakna er öllum velkomið að hafa samband við undirritaða á irish@dalvikurbyggd.is eða í síma 847-4176.
Íris Hauksdóttir
Þjónustu- og upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar