Nýjasta dagbókarfærsla Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn.

Vikan 7.-13. apríl 2025

Nýliðin vika var óvenju fundaþung. Eins og fram hefur komið í fyrri færslum er þessi tími árs þétt setinn aðalfundum en jafnframt voru haldnir íbúafundir og sveitarstjórnarfundur ásamt því að farið var fyrir þingnefnd í vikunni.

Vikan hófst hins vegar eins og jafnan á fundi framkvæmdaráðs sem var formlegur í þetta skiptið þar sem fjallað var um ársreikning sveitarfélagsins og viðauka við fjárhagsáætlun. Ferli afgreiðslu ársreiknings er það að framkvæmdaráð yfirfer hann og sendir byggðarráði til afgreiðslu sem svo vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar. Þar þarfnast hann tveggja umræðna og telst ekki samþykktur fyrr en að þeim loknum. Fyrri umræða fór fram á sveitarstjórnarfundi sem haldinn var í vikunni en seinni umræðan fer fram á reglubundnum sveitarstjórnarfundi í maí og verður reikningurinn þá kynntur í framhaldinu. Að framkvæmdaráðsfundi loknum skoðaði ég lítillega kynningarmál og þá aðallega hvernig hægt er að vekja betri athygli á málum á heimasíðu sveitarfélagsins. Alveg eins og félagasamtök og viðburðahaldarar í sveitarfélaginu hafa fundið fyrir er það áskorun fyrir okkur að koma efni og tilkynningum á framfæri. Einkum hefðum við viljað sjá aukið samráð í þeim málum sem við höfum sett í samráð upp á síðkastið. Við höfum stóraukið samráð við íbúa síðustu misseri. Mál sem hafa farið í samráð eru t.d. reglur um ráðgjöf og líðan og sálfræðiþjónustu í Húnaþingi vestra, reglur um skólaakstur, tillögur um fjölgun bekkja á Hvammstanga og Laugarbakka, framtíðarsýn í málefnum eldri borgara, jafnréttisáætlun Húnaþings vestra, stefna um vellíðan án tóbaks, áfengis og annarra vímuefna, tillögur um opnunartíma leikskóla og frístundar, tillögur um samfélagsmiðstöð, endurskoðun menntastefnu auk mála sem hafa farið til samráðs meðal starfsmanna eingöngu, svo sem mannauðsstefna. Nú er einnig kallað eftir ábendingum í tengslum við vinnslu umferðaröryggisáætlunar. Sjá hér. Við vinnslu áætlunarinnar er mikið er lagt upp úr ábendingum frá íbúum um ferðavenjur, hættur og tækifæri til úrbóta. Sérstaklega er óskað eftir að íbúar á Hvammstanga merki inn gönguleiðir nemenda í skóla til að hægt sé að skoða hvort þörf er á úrbótum á þeim leiðum. Ég hvet íbúa til að skoða vefsjá sem sett hefur verið upp í þessum tilgangi. Þar er hægt að merkja inn leiðir, hættur og hvað annað sem íbúar vilja vekja athygli á og skrá athugasemdir.

Skjáskot af vefsjánni. Smellt er á Senda ábendingu efst í hægra horninu og kemur þá ábendingaglugginn sem sést á myndinni upp.

Eftir hádegið var byggðarráðsfundur á dagskrá. Þar kenndi ýmissa grasa eins og vant er. T.d. var samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun vegna tveggja liða sem ekki var gert ráð fyrir á áætlun. Annars vegar stofnframlögum vegna byggingar fjölbýlisshúss á lóðinni Norðurbraut 15 sem er sunnan við blokkina. Brák íbúðafélag hefur samið við verktaka og er verið að leggja lokahönd á teikningar og slíkt áður en hafist verður handa. Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið sumarið 2026. Einnig var í viðaukanum kostnaður vegna dælu í nýjan bíl slökkviliðsins. Dælan átti að færast á árið 2024 og var því ekki gert ráð fyrir henni á fjárhagsáætlun í ár. Hins vegar var dælan ekki fáanleg fyrr en nú og því þurfti að gera viðauka vegna þessara útgjalda. Einnig var á fundinum samþykkt styrkveiting til Handbendi brúðuleikhúss vegna uppsetningar á sýningunni Karíus og Baktus. Fundargerð byggðarráðsfundar er hér.

Þriðjudagurinn hófst á morgunspjalli bæjar- og sveitarstjóra með Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fundir sem þessir eru haldnir reglulega og farið yfir sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna. Góðir og ganglegir fundir. Að því loknu átti ég fund með aðila sem hefur í hyggju að hefja rekstur í sveitarfélaginu sem vonandi verður að veruleika og verður þá hægt að greina frá síðar. Það er alltaf ánægjulegt þegar fólk sér tækifæri í sveitarfélaginu en því miður raungerast ekki allar hugmyndir eins og gengur. Því næst tók við undirbúningur sveitarstjórnarfundar, frágangur fundarboðs og undirbúningur fundargerðar. Að því loknu sat ég fund með Byggðastofnun og SSNV um möguleika á stuðningi við atvinnuppbyggingarverkefni, bæði með atvinnuráðgjöf landshlutasamtakanna en einnig lánamöguleikum Byggðastofnunar. Þvínæst fór ég ásamt formanni byggðarráðs og oddvita minnihlutans í Búðardal þar sem haldinn var fyrri íbúafundurinn vegna óformlegra sameiningarviðræðna Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Vel var mætt á fundinn og líflegar og ganglegar umræður. Kynningin sem flutt var á fundinum er aðgengileg hér. Ég hvet þau sem ekki komust á fundinn á Hvammstanga til að horfa á upptökuna en sama kynningin var flutt á báðum stöðum. Í kjölfar kynningar var farið í umræður á borðum þar sem fundargestir svöruðu spurningunum hvaða tækifæri liggja í sameiningu, hvaða áskoranir og hvað viljum við alls ekki missa komi til sameiningar.

Frá fundinum í Dalabyggð.

Á miðvikudaginn var ársþing SSNV haldið á Sauðárkróki. Þangað komu þingmenn og framkvæmdastjóri Sambandsins og áttu gott spjall við þingfulltrúa. Ég fór aðeins fyrr af þinginu til að sitja fund atvinnuvegaráðherra og Bændasamtakanna um landbúnaðarmál á Blönduósi. Yfir 100 manns sóttu fundinn og fóru fram afar góðar umræður.

Frá fundinum á Blönduósi, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, Sigríður Ólafsdóttir fundarstjóri og í pontu stendur Trausti Hjálmarsson formaður Bændasamtakanna.

Að þeim fundi loknum var haldið á Hvammstanga þar sem síðari íbúasamráðsfundurinn var haldinn. Fínasta mæting var á fundinn og líkt og í Búðardal var haldin kynning á greiningu KPMG á sveitarfélögunum og að henni lokinni fóru fram umræður. Svipuð atriði komu fram á báðum fundinum og auðvitað sýnist sitt hverjum en almennt séð leyfi ég mér að segja að hljóðið í fólki á báðum fundunum hafi verið nokkuð jákvætt þó eðlilega hafi fólk alla fyrirvara á og hafi áhyggjur af ýmsum atriðum. Alger samhljómur var á báðum fundum varðandi miklivægi þess að samgöngubætur fylgi hugsanlegri sameiningu og auk úrbóta á núverandi vegum kom hugmyndin um þverun Hrútafjarðar fyrir á nær öllum borðum í umræðunni. Það sem nú tekur við er að verkefnisstjórn óformlegra viðræðna gerir tillögu til sveitarstjórna um hvort hún meti ástæðu til að fara í formlegar viðræður en eins og fram hefur komið lýkur þeim með íbúakosningu. Í þeim fasa vinnunnar ef til hans kemur verður farið í ítarlegri útfærslur á hugsanlegu fyrirkomulagi stjórnsýslu nýs sveitarfélags.

Frá fundinum á Hvammstanga. Fundargestir tóku virkan þátt í hugmyndavinnu.

Það var engin lognmolla þessa vikna því í bítið á fimmtudeginum eftir tvo langa daga var haldið af stað til Reykjavíkur þar sem fundað var með umhverfis- og samgöngunefnd vegna umsagnar sveitarfélagsins um höfuðborgarstefnu. Áttum við gott samtal við nefndina en inntakið í umsögn sveitarfélagsins var að leggja þarf áherslu á hlutverk flugvallarins og Landspítalans í þjónustu við landið allt og auk flugsamgangna þarf að tryggja góðar vegtengingar við borgina og var áhersla sett á Sundabraut í því sambandi. Einnig lögðum við áherslu á að stefnan myndi ekki leiða til frekari skerðinga á þjónustu á landsbyggðinni.

Nefndasvið Alþingis er flutt í glæsileg húsakynni í Smiðju við hlið Alþingishússins. Þetta listaverk við innganginn í Smiðju fangaði athygli mína. 

Eftir hádegið var svo sveitarstjórnarfundur þar sem umfjöllun um ársreikning bar hæst. Endurskoðandi sveitarfélagsins kom til fundar og fór í gegnum hann. Aðrir liðir fundarins voru hefðbundnir, samþykkt fundargerða og einstaka liða þeirra. Fundargerðin er hér.

Þar sem dagar vikunnar höfðu verið ansi langir leyfði ég mér að vinna stuttan dag á föstudeginum áður en ég lagði af stað með dóttur mína og vinkonur hennar í bæjarferð. Þar sem mikið hafði verið um fundi í vikunni átti ég eftir að afgreiða ýmis mál og kom því til vinnu á sunnudagsmorgni til að ganga frá því helsta – einkum þar sem ég geri ráð fyrir að vera í fríi að mestu í dymbilvikunni. Þó eru þá einhverjir fundir boðaðir sem ég sinni en verð að öðru leyti í fríi. Því verður nú viku hlé á dagbókarskrifum og næsta færsla ekki væntanleg fyrir en viku eftir páska.

Ég óska íbúum Húnaþings vestra gleðilegra páska.