Nýjasta dagbókarfærsla Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn.

Vikan 5. – 11. maí 2025

Enn og aftur er runnin upp stutt vika í vinnu. Ekki þó vegna lögbundinna frídaga heldur vegna frís sem ég tók mér á mánudag og þriðjudag. Kom það til vegna ferðar sem ég fór með stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í Árneshrepp á Ströndum þar sem við skoðuðum verkefni sem sjóðurinn hefur styrkt. Það er alltaf gaman að koma norður í Árneshrepp og fengum við höfðinglegar móttökur.

Tveggja daga fjarvera þýðir þeim mun þéttari dagskrá þá daga sem eftir standa í vinnuvikunni. Miðvikudagurinn hófst á ritstörfum þegar ég setti saman dagbókarfærslu síðustu tveggja vikna ásamt skýrslu sveitarstjóra sem ég flyt á sveitarstjórnarfundum. Þvínæst fundaði ég ásamt sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs með þjónustuaðilum tölvukerfis sem við höfum verið að skoða. Að þeim fundi loknum fundaði ég með Boga skipulags- og byggingarfulltrúa með starfshópi um byggingu lífsgæðakjarna á svokölluðum Miðtúnsreit (vestan við Nestún). Unnið hefur verið að því að setja niður hugmyndir að uppbyggingu kjarna sem hugsaður er fyrir eldra fólk. Hópurinn hefur skilað af sér hugmyndum sem teknar verða fyrir í byggðarráði fljótlega. Verkefnið er afar spennandi og þetta svæði afskaplega skemmtilegt.

Eftir hádegið fundaði ég með sviðsstjóra fjölskyldusviðs og leikskólastjóra um ýmis mál. Þvínæst skrapp ég í heimsókn í Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfðabrautinni til að undirrita samstarfssamning um skiltagerð í verndarsvæði í byggð á Borðeyri. Spennandi og þarft verkefni enda mikil saga sem tengist staðnum. Þvínæst tók við undirbúningur sveitarstjórnarfundar sem var á dagskrá daginn eftir.

Fimmtudagsmorgun hófst á mánaðarlegum fundi með sveitarstjórum landshlutans og SSNV. Áttum við gott spjall um ýmis mál. Þangað til undirbúningsfundur sveitarstjórnarfundar hófst strax eftir hádegið gekk ég á tölvupóstsbinginn og sinnti ýmsum verkefnum. Meðal annars skrifaði ég afar ánægjulega frétt á heimasíðu sveitarfélagsins um sigur ungmennanna okkar í Fiðringi, hæfileikakeppni Norðurlands. Mikið óskaplega sem við eigum hæfileikaríka krakka. Þetta var í fyrsta skiptið sem þau tóku þátt í keppnninni og komu, sáu og sigruðu. Atriðið þeirra var áhrifamikið og fjallaði um baráttu kvenna í gegnum aldirnar en innblásturinn fengu þau úr fræðslu sem 10. bekkur fékk um Vigdísi Finnbogadóttur. Ekki bara var atriðið vel útfært í söng, leik og dansi heldur var boðskapurinn áhrifamikill. Ég hvet þau sem ekki hafa séð atriðið að horfa á það.

Eftir hádegið var svo sveitarstjórnarfundur. Á honum voru óvenjufáar nefndafundargerðir til umfjöllunar þar sem fundir höfðu fallið niður af ýmsum orsökum, m.a. vegna fjölda frídaga í mánuðinum. Það sem helst bar á góma var tvennt. Annars vegar ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2024 og hins vegar tillaga verkefnisstjórnar könnunarviðræðna um hugsanlega sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar.

Byrjum á ársreikningnum. Ítarlega er um hann bókað í fundargerð sveitarstjórnarfundarins sem ekki verður allt endurtekið hér. Í mjög stuttu máli er afkoma sveitarfélagsins afar góð eða 265 milljónir í hagnað í A- og B-hluta. Er það langt fram úr áætlun. Hluti af þeim hagnaði er söluhagnaður, eða 96 milljónir, þar af 88 milljónir fyrir íbúðir við Gilsbakka á Laugarbakka sem ekki koma í „kassann“ ef svo má segja heldur færast sem eignarhlutur í leigufélaginu Bríeti. Annað sem skýrir þessa góðu afkomu er helst áhrif lækkandi verðbólgu á fjármagnsgjöld, hærra útsvar en gert hafði verið ráð fyrir, auknar þjónustutekjum en ekki síst ráðdeild forstöðumanna í rekstri en nær allar deildir aðalsjóðs eru reknar undir áætlun. Ég er afar stolt af okkar fólki sem fer vel með sameiginlega fjármuni okkar sem meðal annars skilar þessari góðu niðurstöðu. Einnig vegur þungt í þessari niðurstöðu sú ákvörðun sveitarstjórnar að takmarka lántökur í því háa verðbólgustigi sem verið hefur undanfarin misseri. Það hefur krafist fórna en gerir það að verkum að við náum járnum okkar fyrr en ella og getum nú ráðist í mun meiri framkvæmdir en á síðasta og þar síðasta ári. Eins og Stefán heitinn á Mýrum, samstarfsmaður minn í sveitarstjórn á sínum tíma, sagði alltaf þá er betra að gera eitthvað nytsamlegt fyrir peningana en að þeir fari í vexti.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka sviðsstjórum og forstöðumönnum fyrir þeirra hlut í þessari góðu afkomu og einnig þakka sveitarstjórn fyrir þeirra góða samstarf sem skiptir máli í ákvarðanatöku og stefnumótun þegar til fjármála kemur.

Þá að sameiningarmálum. Á fundinum var tillaga verkefnisstjórnar könnunarviðræðna tekin fyrir. Tillaga þeirra er á þann veg að þau leggja til að ráðist verði í formlegar viðræður og var það samþykkt samhljóða í sveitarstjórn á fundinum. Vert er að taka fram að ákvörðunin þarfnast tveggja umræðna í sveitarstjórn enda um að ræða afar stóra ákvörðun. Verði hún samþykkt í seinni umræðu verður ráðist í formlegar viðræður sem enda með íbúakosningu. Í þessum málum hafa íbúar alltaf síðasta orðið. Miðað við tillöguna sem lögð var fram er gert ráð fyrir að kosning fari fram í desember en tíminn fram að því nýttur í frekari gagnaöflun, fundi með íbúum, starfsmönnum og öðrum hagsmunaaðilum. Ég hvet þau sem hafa athugasemdir, áhyggjur eða hugmyndir að heyra í mér eða kjörnum fulltrúum því afar mikilvægt er að öll sjónarmið komi fram.

Föstudagurinn hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Því næst fundaði ég með lögmönnum sveitarfélagsins um ýmis mál í vinnslu og þar á eftir með einum styrkhafa Atvinnu- og nýsköpunarsjóðs Húnaþings vestra um framgang verkefnisins. Það sem eftir lifði dags þá vann ég úr sveitarstjórnarfundinum og hreinsaði af verkefnalistanum það sem hægt var.