Nýjasta dagbókarfærsla Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn

20.-26. október 2025

Einn ein vikan að baki. Orðatiltækið allt fram streymir á svo sannarlega við og ég er ekki frá því að straumurinn harðni eftir því sem árin líða eða réttara sagt áin líði hraðar hjá en áður. Vikan einkenndist af hefðbundnum fundum, aukafundi sveitarstjórnar og síðast en ekki síst árshátíð grunnskólans sem alltaf er glæsileg og krökkunum okkar til sóma.

Mánudagurinn hófst með hefðbundnum hætti á fundi framkvæmdaráðs. Þar var m.a. fjallað um viðauka við fjárhagsáætlun en samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins þarf framkvæmdaráð að staðfesta þá áður en þeir eru lagðir fyrir byggðarráð og svo sveitarstjórn. Ferlið er því vel inn rammað og hugsað til að auka festu, gagnsæi og ábyrgð í fjármálastjórn. Að framkvæmdaráðsfundi loknum þá tóku við dagsbókarskrif liðinnar viku auk undirbúnings byggðarráðsfundar og frágang ýmissa mála. Byggðarráðsfundurinn var svo á sínum stað eftir hádegið. Þar var tekið fyrir minnisblað um stofnun starfshóps um húsnæðisþörf og þróun útisvæðis leikskólans Ásgarðs. Samþykkti ráðið að skipa slíkan hóp enda er nemendafjöldi við skólann kominn að þeim mörkum sem sett hafa verið um hármarks fjölda. Nú eru 69 börn á leikskólanum en talað hefur verið um að hann rúmi mest um 70 börn. Það er því kominn sá tímapunktur að bregðast þarf við enda eru leikskólapláss ein af forsendum þess að við getum tekið við fleiri íbúum. Einnig var fjallað um gjaldskrá leikskólans en við höfum verið að skoða mismunandi leiðir til að gera breytingar á henni til að mæta styttingu vinnuviku og bæta starfsaðstæður í leikskólanum. Þá var tekið fyrir tilboð húseiganda eignarinnar að Norðurbraut 32 en byggðarráð gekk að tilboðinu. Á reitnum þar sem steypustöðin stendur hefur um árabil verið skipulagt íbúðahverfi. Lóðaleigusamningar eru útrunnir og hefur staðið yfir samtal við eigendur eigna á reitnum vegna losunar lóðanna.

Eftir vinnu á mánudaginn fór ég svo í Jóga Nidra hjá Pálínu en ég samdi við hana í haust um að bjóða starfsfólki sveitarfélagsins upp á einn tíma á viku. Er það í takti við bæði þátttöku okkar í verkefninu um Heilsueflandi sveitarfélag og einnig Geðheilsustefnu Húnaþings vestra sem samþykkt var á dögunum. Það er gott að leggjast aðeins niður í lok dags og slaka á.

Þriðjudagurinn hófst á mánaðarlegum stjórnendafundi. Slíkir fundir eru nauðsynlegir til að við vitum öll hvað er efst á baugi á hverri starfsstöð. Að þeim fundi loknum ók ég sem leið lá í Borgarnes þar sem ég sat fund framkvæmdastjórnar Heilbirgðisstofnunar Vesturlands og sveitarstjóra á starfssvæði stofnunarinnar. Virkilega góður og upplýsandi fundur þar sem farið var yfir það helsta í starfseminni. Heilbrigðisstofnunin er okkur afar mikilvæg bæði með tilliti til þjónustu við íbúa en ekki síður sem vinnustaður. Við erum ákaflega stolt af því að íbúar í Húnaþingi vestra eru þeir ánægðustu á landinu með heilsugæsluna í sínu sveitarfélagi sem er sannarlega rós í hnappagat okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólks hér í sveitarfélaginu. Þegar heim var komið fór fram afhending umhverfisviðurkenninga fyrir árið 2025 en nefnd um umhverfisviðurkenningar kallar eftir tilnefningum og ákveður svo hver hljóta viðurkenninguna. Í ár voru það Riishús á Borðeyri, Mánagata 4 og Teigagrund 1 sem veitt var viðurkenning. Snyrtilegt umhverfi er afar mikilvægt okkur öllum og segir mikla sögu um stöðu samfélagsins. Ég óska viðurkenningahöfum til hamingju og færi þeim um leið þakkir fyrir að leggja sitt af mörkum til að viðhalda góðri ásýnd sveitarfélagsins. Nánari upplýsingar um viðurkenningarnar má finna hér.

Á miðvikudagsmorgninum hóf ég leika á að skoða ýmiskonar innviðamál í sveitarfélaginu fyrir fund sem fram fór síðar um morguninn með Sigurði Líndal hjá Eimi. Við vinnum nú að því að draga saman nauðsynlegar upplýsingar fyrir fjárfesta og hyggjum á sókn í þeim efnum. Jafnframt hefur Eimur lagt okkur lið með ýmsar styrksumsóknir sem er okkur afar mikilvæg þjónusta. Eimur er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna á Norðurlandi, umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis, Landsvirkjunar, Orkuveitu Húsavíkur og Norðurorku. Markmið þeirra er að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi með verðmætasköpun, sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi. Það er fengur í því að hafa eins öflugan aðila í þessu starfi hér í sveitarfélaginu. Ég er þess fullviss að þetta samtal mun leiða af sér uppbyggingarverkefni í sveitafélaginu. Eftir hádegið fundaði ég ásamt verkefnisstjóra umhverfismála um vannýta auðlind, sorpið, með Pure North en þau sérhæfa sig í þjónustu við sveitarfélög vegna sorpmála. Góður fundur sem mun nýtast vel í endurskipulagningu sorpmála í sveitarfélaginu sem nú stendur yfir. Því næst fékk ég íbúa í heimsókn sem vildi ræða ýmis mál. Það er alltaf gott að eiga samtal um sveitarfélagið, bæði um það sem betur má fara en einnig um það sem vel er gert.

Á fimmtudeginum var haldinn aukafundur sveitarstjórnar þar sem álit sameiningarnefndar var tekið til umræðu. Um morguninn fóru hins vegar fram framhaldsviðtöl vegna ráðningar í starf sviðsstjóra umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs. Ráðgjafi frá Intellecta kom og stýrði viðtölunum en ásamt mér var oddviti viðstaddur. Samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins ræður sveitarstjórn í störf sviðsstjóra. Gera má ráð fyrir að gengið verði frá ráðningu mjög fljótlega.

Á sveitarstjórnarfundinum var álit sameiningarnefndar í forgrunni. Í stuttu máli metur nefndin það sem svo að það væri framfaraskref fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra að sameinast. Ítarlegt forsenduskjal liggur nú fyrir og ég hvet íbúa til að kynna sér það vel og mynda sér skoðun byggða á staðreyndum sem þar er að finna. Ég hef áður sagt að ég mun horfa á málið frá rekstrarlegum forsendum en umtalsverðir fjármunir koma inn í rekstur sameinaðs sveitarfélags ef af verður. Það má auðvitað horfa á málið út frá fleiri vinklum og vissulega eru bæði kostir og gallar fólgnir í sameiningu. Ég á örugglega eftir að segja það oft á þessum vettvangi fram að sameiningarkosningum að það er gríðarlega mikilvægt að fólk mæti á kjörstað og taki afstöðu, alveg sama í hvaða átt hún er. Mörg hafa talað um að sameining myndi ekki skipta þau neinu máli. Þrátt fyrir það er mikilvægt að mynda sér skoðun og kjósa. Niðurstaða kosningarinnar er bindandi og þetta er stór ákvörðun. Ég er tilbúin til samtals um þær forsendur sem liggja til grundvallar og hvaða áhyggjur sem íbúar kunna að hafa. Fólk getur hvort sem er sent mér tölvupóst eða hringt (ég er í símaskránni). En nóg um það…í bili.

Á sveitarstjórnarfundinum var einnig staðfest ákvörðun byggðarráðs um að taka tilboði húseiganda Norðurbrautar 32. Eins var bókað um fyrirhugaða breytingu á tollflokkun fjór- og sexhjóla sem mun ef af verður leiða til mikillar hækkunar á þessum mikilvægu landbúnaðartækjum. Að fundinum loknum settist ég niður með oddvita og formanni byggðarráðs og við fórum yfir ýmis mál. Þar á eftir gekk ég frá bókuninni um sex- og fjórhjólin og sendi hana á viðeigandi staði áður en ég hélt heim á leið.

Á fimmtudagskvöldinu fórum við hjónin í gusu hjá Sánasetrinu sem er nú ekki í frásögur færandi. Ég má bara til með að deila með lesendum þessari mynd sem ég tók að gusu lokinni þar sem við fengum svo falleg norðurljós í kaupbæti.

östudagsmorguninn fór í ýmis verkefni við skrifborðið fram að hádegi. Eftir hádegið fór ég svo aftur í gusu, í þetta skiptið með starfsfólki ráðhússins. Að henni lokinni fór ég aftur á skrifstofuna og undirritaði nauðsynleg skjöl vegna loka lóðaleigusamningsins að Norðurbraut 32, ég fór í kjölfarið upp í safnaðarheimili í stutta stund og fylgdist með beinni útsendingu frá útifundinum á Arnahóli. Ég fór að því loknu aftur á skrifstofuna, sendi nokkrar myndir frá samkonunni á RÚV sem þau svo birtu á fréttarás dagsins sem var helguð kvennaverkfallinu. Seinnipartinn var svo árshátíð grunnskólans í Félagsheimilinu. Þar stigu nemendur á stokk og unnu leiksigra hvert af öðru. Dóttir mín er í 7. bekk en sú hefð hefur skapast að þau sjái um kynningar og stutt innslög á milli atriða. Sonur minn sem er í 9. bekk var í þetta skiptið á ljósaborðinu og stóð sig með mikilli prýði í tæknimálunum ásamt Jakobi vini sínum og bekkjarbróður. Í uppsetningu sem þessari felst heilmikið nám sem er ekki síður mikilvægt en bóknámið. Í það minnsta eru þessar uppsetningar frá því að ég var í skólanum mér afar minnistæðar. Ég man eftir að hafa dansað og „mæmað“ með Minipops og tekið þátt í leikfimisýningum. Mig minnir að ég hafi deilt mynd af einni slíkri á þessum vettvangi áður en hún er bara of góð til að sleppa því að deila henni ekki aftur. Ég stend þarna teinrétt hægra megin á myndinni og bý mig undir að „fara í flugvél“ í líklega lokatriði sýningarinnar.

Þar sem ég þurfti að vinna lítið eitt í kvennaverkfallinu þá færði ég það yfir á helgina og lét aldrei slíku vant alfarið vera að opna tölvuna. Átti ég góðar samverustundir með mínu fólki, sinnti innviðaskuld á heimilinu og prjónaði svo fátt eitt sé talið. Mætti fyrir vikið til vinnu á mánudegi með full hlaðin batterí.

Mynd/Húnaþing vestra